Sigmundi Davíð boðin sáttahönd

Ráðherrar fengu þrílit herrabindi og slaufur í upphafi ríkisstjórnarfundar í morgun til að vekja athygli á átakinu Karlar og krabbamein sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar funda í dag með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins en hann sagðist óánægður með stjórnina í fréttum sjónvarps í gær, ráðherrarnir væru of einráðir og drægju lappirnar í veigamiklum málum, svo sem stjórnlagaþingsmálinu. Hann sagði þó að framsóknarmenn ætluðu ekki að fella stjórnina.

Minnihlutastjórnin sem hefur enn sem komið er aðeins komið einu máli í gegnum þingið, seðlabankafrumvarpinu en eitt af því sem formaður Framsóknarflokksins gagnrýnir er hversu langan tíma það tók.

Steingrímur J. Sigfússon segir að óskað verði eftir fundi með formanninum til að fara yfir þau mál sem séu í farvatninu og hvar þau séu á vegi stödd, Það ætti að sannfæra hann um að ríkisstjórnin væri að vinna hörðum höndum að brýnum málum.

Össur Skarphéðinsson segir framsóknarmenn syngja aríur til að vekja á sér athygli. Síðustu dagar hafi ekki verið góðir fyrir flokkinn en sérfræðingar og stjórnmálamenn hafi tætt tillögur þeirra í efnahagsmálum í sig.  Minnihlutastjórnin þurfi að semja mál í gegnum þingið og það sé jákvætt. Staðreyndin sé sú að engin mál fari í gegn um þingið nema blessaður Framsóknarflokkurinn vilji það. Hann ætli að verja stjórnina falli og hafi ekki gefið út neina óútfyllta ávísun á þau mál sem hann vilji styðja. En ef flokkurinn ætli ekki að hleypa mikilvægum málum í gegnum þingið verði hann líka að horfast í augu við þá ábyrgð sem kunni að felast í því að stoppa þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert