Varnargarður enn í smíðum

Bolungarvík.
Bolungarvík. www.mats.is

Íbúar í Bolungarvík sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gær vegna snjóflóðahættu, eru margir hverjir afar undrandi á því að ekki skuli tekið tillit til varnargildi snjóflóðavarnargarðsins sem er á framkvæmdastigi við Traðarhyrnu í Bolungarvík.

Við teljum ekki ástæðu til að láta hann hafa áhrif á ákvarðanir á þessu stigi. Hann er einungis brot af því mannvirki sem þarna er verið að reisa,“ segir Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, en Veðurstofan og lögreglustjórinn á Vestförðum lýstu yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu í Traðarhyrnu í gær.

Aðspurður segir Tómas, Veðurstofuna hafa að hluta tekið tillit til byggðra mannvirkja, t.d. á Siglufirði, þegar garðurinn er kominn nokkurn veginn í lokahæð. „En framkvæmdin í Bolungarvík er ekki komin það langt að við sjáum ástæðu til að taka tillit til hennar,“ segir Tómas.

Hlé var gert á framkvæmdum við snjóflóðavarnagarðinn í Traðarhyrnu yfir vetrartímann. Rúnar Ágúst Jónsson, staðarstjóri Ósafls sem sér um framkvæmdina, sagði í samtali við bb.is þann 1. mars, verkinu lokið þegar hlé var gert á framkvæmdum, en garðurinn ætti þó eftir að hækka töluvert.

„Hann á eftir að fara svolítið ofar. Við erum búnir að byggja undir þar sem netgrindurnar koma og síðan bætast fjórtán metrar ofan á það. Það er víða sem hann á eftir að hækka um fjórtán metra,“ sagði Rúnar Ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert