Afnotagjöld RÚV í einni greiðslu

Neytendasamtökin benda á að nefskattur sem kemur í stað afnotagjalda RÚV, verður innheimtur í einu lagi með álagningu tekjuskatts þann 1. ágúst. Fyrir hjón með þrjá unglinga, eldri en 16 ára, getur þetta þýtt 86 þúsund króna kostnaðarauka í byrjun ágúst.

Neytendasamtökin benda fólki á að hafa í huga að einn liður í föstum útgjöldum heimilisbókhaldsins hefur tekið breytingum, úr jöfnum mánaðarlegum greiðslum í eina stóra greiðslu sem kemur til innheimtu í ágústbyrjun. Það er hinn svokallaði nefskattur fyrir RÚV.
 
Samkvæmt lögum sem samþykkt voru skömmu fyrir jólaleyfi Alþingis, var ákveðið að leggja afnotagjald Ríkisútvarpsins niður frá og með 1. janúar 2009. Í stað afnotagjalds kemur nefskattur, sem verður 17.200 krónur fyrir árið 2009. Gjaldið greiða allir þeir sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. allir á aldrinum 16 til 70 ára sem eru yfir skattleysismörkum, en þau eru um 1.360.000 krónur vegna ársins 2008. Þá greiða allir lögaðilar útvarpsgjald. Áætlað er að greiðendur gjaldsins geti verið um 205.000 á árinu 2009.

Á vefsíðu Neytendasamtakanna segir að margir neytendur skoði ekki reglulega boðgreiðslur á kreditkortum eða beingreiðslur af bankareikningi sínum. Oft hafi komið í ljós að greiðslur hafi verið skuldfærðar í marga mánuði og jafnvel ár fyrir þjónustu sem fólk telur sig hafa sagt upp fyrir löngu. Það sé því alveg eins víst að fólk átti sig ekki á að frá áramótum lögðust af fastar skuldfærslur fyrir afnotagjald RÚV.

Nefskatturinn verður innheimtur með álagningu tekjuskatts og mun því ekki koma til kasta afnotadeildar RÚV, enda verður sú deild lögð niður 1. apríl nk. Þá verður fólk að snúa sér til skattayfirvalda ef það hefur eitthvað að athuga við þessa innheimtu. Í lögunum kemur fram að gjalddaginn fyrir þennan skatt er aðeins einn, 1. ágúst ár hvert og dreifist ekki á fleiri mánuði eins og tekjuskattur gerir. Launagreiðendur fá því kröfu frá innheimtumönnum um að draga þennan skatt af launum hvers og eins. Það er því ljóst að útborguð laun 1. ágúst verða 17.200 krónum lægri en margur gerir ráð fyrir. Þetta á einnig við um þá sem eru á atvinnuleysisbótum, segir á vefsíðu Neytendasamtakanna.

Hjá hjónum er nefskatturinn 34.200 krónur og auð auki 17.200 krónur fyrir hvern einstakling eldri en 16 ára. Fyrir hjón með þrjá unglinga, 16 ára og eldri, getur þetta þýtt 86.000 króna óvæntan kostnaðarlið fyrir fjölskylduna 1. ágúst nk.

Hjá flestum birtist skýrt í útreikningi á rafrænum framtölum hvaða upphæð má búast við á álagningarseðlum og vilja Neytendasamtökin hvetja fólk til að gera ráð fyrir nefskattinum í heimilisbókhaldi sínu.

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert