Grágás í utanlandsferð

Grágás, sem lagðist í ferðalög í vetur.
Grágás, sem lagðist í ferðalög í vetur.

Gæsin Grágás sem er í eigu Orators, félags laganema, var numin á brott af norskum laganemum á árshátíð Orators þann 16. febrúar. Gæsin var flutt með leynd úr landi, en er nú komin til síns heima eftir viðburðaríka dvöl í Noregi.

Fram kemur á fréttavefnum student.is, að Grágás sé alltaf með á árshátíð laganema. Hún stendur á sviðinu og er ávörpuð meðan á ræðuhöldum stendur. Hún er svo fjarlægð þegar ballið byrjar.

Sú hefð hefur skapast, að norrænir gestir á árshátíð Orators reyna að  stela gæsinni og öðru af skrifstofu félagsins. Lárus Gauti Georgsson, formaður Orators, segir við student.is, að vegna þessa hafi gæsarinnar verið vel gætt nú. Hún var sett í öryggishólf á hótelinu þar sem árshátíðin var haldin og félagar í Orator stóðu vörð.

Norðmennirnir beittu hins vegar ýmsum blekkingum og bellibrögðum og þrátt fyrir viðamiklar öryggisráðstafanir Orators tókst þeim að nema gæsina á brott. „Við fréttum að þeir hefðu farið með Grágás í leigubíl á BSÍ og falið hana þar. Síðan fóru þeir með hana í handfarangri úr landi,” segir Lárus.

Hann bætir við, að ekki hafi væst um Grágás á ferðalaginu en þegar til Óslóar var komið var farið með hana vítt og breitt um borgina, meðal annars á fund borgarstjóra Oslóarborgar. Íslensku laganemarnir fréttu af ferðalagi gæsarinnar og er hún nú komin heim á ný.

Grágás er nefnd eftir fornu lagasafni Íslendinga sem ritað var á þjóðveldisöld. Núverandi gæs er um tíu ára gömul en til er önnur eldri.

Student.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert