Þúsundum vísað úr HÍ vegna kerfisvillu

Nemendum HÍ fækkaði skyndilega um helming.
Nemendum HÍ fækkaði skyndilega um helming. mbl.is/Ómar

Símalínur Stúdentaráðs Háskóla Íslands urðu rauðglóandi er um 8.000 nemendur fengu í gær sent skeyti sem tjáði þeim að þeir væru ekki lengur í námi við skólann og því hefði Stúdentakorti þeirra verið lokað.  

Óhætt er að segja að margir hafi fengið áfall, enda ekkert grín að vera vísað úr skóla á tímum sem þessum.  Voru námsmennirnir hvattir til að svara þessari tilkynningu með rökstuðningi, væru þeir ósáttir við brottvísunina.

Að sögn Hildar Björnsdóttur, formanns Stúdentaráðs HÍ, var ástæða brottvísunarinnar kerfisvilla hjá Reiknistofnun HÍ.

„Skyndilega skráðust um 8.000 nemendur úr Háskólanum fyrir mistök og þá uppfærist Stúdentakortakerfið okkar sjálfkrafa. En þegar fólk skráist úr skólanum þá fær það sjálfkrafa þennan tölvupóst. Þetta var lagfært í hvelli, enda síminn rauðglóandi þegar að við mættum til vinnu í gær.  Það eiga því allir að vera búnir að fá tölvupóst þess efnis að þeir séu ennþá í skólanum og þurfi ekki að örvænta.“

Hún segir marga hafa verið sára og reiða, sérstaklega erlendu nemendurna sem hafi mörgum fundist þetta mjög skrýtið. „Við leiðréttum þennan misskilning og ég vona að fólk fyrirgefi þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert