Deildu hart í þingsal

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Til harkalegra orðaskipta kom á milli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Sturlu Böðvarssonar Sjálfstæðisflokki á Alþingi í dag. Tilefnið voru skrif Sturlu í Fréttablaðinu í dag þar sem hann segir ríkisstjórnina hafa komist til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi.

„Þetta er með því allra lágkúrulegasta og fyrirlitlegasta sem ég hef séð íslenskan stjórnmálamann lengi reyna,“ sagði Steingrímur og vitnaði í grein Sturlu þar sem hann sagði einnig að ráðherra Vg hefði hreykt sér af að hafa staðið að baki mótmælaaðgerðunum og margir telji að þær hafi verið skipulagðar í skjóli Vg.

„Þetta eru einhver ömurlegustu ummæli sem ég hef lengi séð frá stjórnmálamanni. Þetta eru ómagaorð, þetta eru órökstuddar og rangar dylgjur um starfsbræður háttvirts þingmanns í stjórnmálum. Og lýsi sérstakri skömm  minni á því að Sturla Böðvarsson, háttvirtur þingmaður og fyrrverandi forseti Alþingis, skuli leyfa sér málflutning af þessu tagi,“ sagði Steingrímur og bætti við að hann lýsti skömm sinni á þessum málflutningi.

Sturla sagði, að sannleikanum yrði hver sárreiðastur, það sannaðist þegar hlustað væri á gífuryrði fjármálaráðherra. Vissulega hefði mikið mætt á Alþingi í haust og vetur og alþingismenn hefðu langflestir staðið bærilega í fæturna og fengist við þau mikivægu verkefni, sem þyrfti að vinna á Alþingi. En gífuryrði í garð einstakra þingmanna vektu athygli. Sagðist Sturla hvetja Steingrím að kynna sér bókun forsætisnefndar frá í janúar.

Steingrímur kom á nýjan leik í ræðustól og sagði að sér væri nákvæmlega sama um hvað væri bókað í forsætisnefnd Alþingis. „Ég sem formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs veit fyrir hvað sá flokkur stendur og veit að hann hefur ætíð og alltaf laggst gegn hvers kyns notkun ofbeldis,“ sagði hann. „Það er algerlega óboðlegur óhróður sem er beint nánast aðheilli ríkisstjórn og stjórnmálaflokki og að ríkisstjórn hafi komist til valda í skjóli ofbeldsifullra aðgerða gegn Alþingi. Þetta er svo yfirgengilegur málflutningur, að hann dæmir sig algerlega sjálfur,“ sagði Steingrímur. „Þetta er ósannur og ómaklegur og óviðeigandi órhróður, sem er háttvirtum þingmanni til sérstakrar skammar,“ bætti hann við.

Sturla sagði að Steingrímur hefði ítrekað staðið í ræðustóli á þinginu og notað orðbragð, framgöngu og látbragð sem enginn annar þingmaður hefði leyft sér. „Svo úr háum söðli hefur hæstivirtur þingmaður og ráðherra ekki að detta."

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert