Eftirlaunafrumvarp samþykkt

Alþingi hefur afnumið sérstök lög um eftirlaun ráðherra, alþingismanna, forseta …
Alþingi hefur afnumið sérstök lög um eftirlaun ráðherra, alþingismanna, forseta Íslands og annarra æðstu embættismanna ríkisins. mbl.is/Heiðar

Frumvarp um eftirlaun forseta, ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á þingfundi Alþingis nú eftir hádegi. Þar með eru umdeild eftirlaunalög sem sett voru árið 2003 felld úr gildi.

Fjölmargir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og fögnuðu samstöðu þingmanna um afgreiðslu frumvarpsins.

 „Það er söguleg stund þegar Alþingi nú nemur úr gildi forréttindi þingmanna og þá sérstaklega ráðherra í lífeyrismálum,“ sagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra. Mörður Árnason Samfylkingu sagði þetta merkilega stund þar sem sérréttindi þingmanna og ráðherra í lífeyrismálum væru felld niður. Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðisflokki sagðist hlynntur þessari breytingu en hann beindi því til ríkissstjórnarinnar að Kjararáði yrði falið að ákvarða um öll kjör þingmanna. Birkir Jón Jónsson Framsóknarflokki lýsti mikilli ánægju með að eftirlaunaréttindi þingmanna væru samræmd réttindum opinberra starfsmanna. „Hér er efnislega verið að samþykkja það sem grænu flokkarnir lögðu til á síðasta ári, Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin- grænt framboð. Það er verið að samþykkja það sem þessir flokkar lögðu til,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert