Treysta á eina þyrlu

Við skoðun á TF-LÍF kom í ljós að skipta þarf …
Við skoðun á TF-LÍF kom í ljós að skipta þarf um væng í stéli. Vængurinn er væntanlegur í lok mars og þá ætti skoðun fljótlega að ljúka. mbl.is/Ómar

Óflugasta þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið óflughæf í tvo mánuði vegna viðhalds og ekki er líklegt að hún komist aftur í gagnið fyrr en í lok mars eða byrjun apríl. Gæslan ræður yfir tveimur þyrlum til viðbótar en önnur þeirra hefur bilað nokkrum sinnum á þessu tímabili og á fimm daga tímabili um miðjan janúar var aðeins ein björgunarþyrla flughæf.

Reglubundið viðhald á TF-LÍF hófst í byrjun janúar. Um er að ræða svonefnda 500 tíma skoðun sem er afar umfangsmikil og fer að jafnaði fram annað til þriðja hvert ár.

Í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra um þyrlumál, sem skipaður var eftir að ljóst varð að varnarliðið ætlaði af landi brott í október 2006, segir að fjórar þyrlur séu nauðsynlegar til að tryggja lágmarksviðbúnað, þar af þrjár langdrægar þyrlur til að tryggja megi að ávallt séu tvær flughæfar. Ástæðan er einkum sú að ef eitthvað bjátar á hjá einni þyrlunni, t.d. þegar hún er í björgunarflugi langt á hafi úti, sé önnur tiltæk til að koma áhöfn þyrlunnar til bjargar og til að sinna öðrum björgunarstörfum.

Gæslan ræður nú yfir þremur þyrlum. TF-LÍF er sú eina sem er í eigu Gæslunnar en hinar tvær, TF-GNÁ og TF-EIR, eru leigðar af erlendum fyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni hefur TF-EIR verið óflughæf í 11 daga frá áramótum en TF-GNÁ tvisvar verið óflughæf hluta úr degi. TF-LÍF hefur verið úr leik nánast allt þetta ár, eins og fyrr segir.

Þá verður að hafa í huga að aðeins önnur þeirra þyrlna sem nú eru flughæfar er langdræg, þ.e. TF-GNÁ. Hin, TF-EIR, getur ekki farið í björgunarflug lengra en 150 sjómílur frá landi. Ef TF-GNÁ hlekktist á meira en 150 sjómílur frá landi gæti TF-EIR því ekki bjargað áhöfn TF-GNÁ, gerðist þess þörf.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að það þýði þó ekki að Gæslan muni ekki fara í lengra björgunarflug en sem nemur flugdrægni TF-EIR, þ.e. 150 sjómílur. „Ég get ekki fullyrt hvort við myndum fara eða ekki. Það verður að skoða veður og aðrar aðstæður í hverjum leiðangri,“ segir Georg. Ákvörðunin sé ávallt í höndum flugstjóra. Meðal þess sem yrði skoðað er hvort þyrlan gæti haft öryggi af dönskum eða norskum varðskipum sem oft séu í grennd við landið og séu að öllu jöfnu með þyrlu um borð, hvort önnur skip væru í grennd o.s.frv. „En ég get ekkert þrætt fyrir að þetta þýðir skerta björgunargetu og skerta þjónustu með einhverjum hætti,“ segir Georg.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert