Glundroði í málum tónlistarhúss

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi harðlega áform um byggingu tónlistarhúss við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun og sagði það kosta milljarða í verðmætum gjaldeyri. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, sagði ákveðinn glundroða í málinu.

Pétur sagði að þessari framkvæmd hafi á sínum tíma verið laumað í gegnum heimildargrein fjárlaga, 6. grein, og hafi aldrei komið inn á sjálf fjárlögin. Það sé með þetta eins og margar aðrar einkaframkvæmdir að verið sé að plata skattgreiðendur framtíðarinnar og látið líta út „eins og guð almáttugur hafi hent þessu ofan af himnum.“  

Gunnar Svavarsson greindi frá því að fulltrúar menntamálaráðuneytis og Austurhafnar hafi verið boðaðir á fund fjárlaganefndar á mánudag til að gera grein fyrir stöðu málsins.  „Ef hugmyndafræðin er sú að Austurhöfn eigi að kaupa Portus og gera það að dótturfélagi, þá um leið þarf Austurhöfn að gera Portus upp í samstæðunni og tekur yfir skuldbindingarnar. Skuldbindingar Portusar eru ekki þær sömu og Austurhafnar, því verkefni Austurhafnar um tónlistar- og ráðstefnuhús eru allt aðrar en verkefni Portusar,“ sagði Gunnar. Ef stjórn Austurhafnar ætli sér að kaupa Portus og gera það upp í samstæðu sinni verði hún að koma að þessu máli.

Pétur Blöndal sagðist ekki ráða annað af upplýsingum Gunnars en að ríkið væri ekki eingöngu skuldbundið vegna byggingar tónlistarhússins, heldur líka til að reisa 5 stjörnu hótel. Spurði Pétur hvort Alþingi hafi verið platað og hvort menn stæðu núna frammi fyrir að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar, bæði vegna tónlistarhússins og hótelframkvæmda, sem ríkið væri neytt til að ráðast í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert