367 milljónir í umferðaröryggi

Umferðarmynd
Umferðarmynd mbl.is/Ómar

Skrifað hefur verið undir samninga um sérstakt umferðareftirlit og sjálfvirkt hraðaeftirlit milli Ríkislögreglustjóra annars vegar og hins vegar Vegagerðarinnar og Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytis. Samningarnir gilda í tvö ár og eru hluti af umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Framlag til umferðaröryggisáætlunar í ár verður alls 367 milljónir króna. Var skrifað undir samningana á blaðamannafundi í dag.

Stærstu liðir umferðaröryggisáætlunar eru sem fyrr aðgerðir á sviði öryggis vega og umhverfis þeirra. Verður veitt 110 milljónum króna til að eyða svartblettum í þjóðvegakerfinu, 100 milljónum til að lagfæra umhverfi vega og koma upp vegriðum og 10 milljónir fara í gerð hvíldarsvæða.

Annar stærsti liðurinn eru áðurnefndir samningar við Ríkislögreglustjóra að upphæð 76 milljónir króna.

Annar samningurinn tekur til eftirlits lögreglu með ökuhraða, eftirlits með ölvunarakstri og annars hefðbundins eftirlits lögreglu með umferðinni. Lögð er á það áhersla eins og í fyrri samningi að þessi verkefni komi til viðbótar hefðbundnu eftirliti lögreglunnar.

Hinn samningurinn er um að greiða tvær stöður lögreglumanna í Stykkishólmi vegna úrvinnslu sekta úr löggæslumyndavélum vegna hraðakstursbrota. Er það eftirlit einnig viðbót við það eftirlit sem þegar er fyrir hendi og er því bein aukning á eftirliti með hraðakstri á vegum úti. Umferðarmælar Vegagerðarinnar hafa sýnt að umferðarhraði á þjóðvegum hefur farið lækkandi að undanförnu og má ætla að eftirlitið með löggæslumyndavélum eigi sinn þátt í þessari þróun.

Alls verða lagðar 36,5 milljónir króna í áróður og fræðslu. Eru það annars vegar ýmis áróðurs- og auglýsingaverkefni og hins vegar fjárveiting til umferðarfræðslu sem Grundaskóli á Akranesi stýrir og sinnir sérstaklega í samstarfi við nokkra aðra skóla og hefur gefið góða raun. Þá fara 12,5 milljónir króna í samstarf og þróun og til forvarna vegna erlendra ökumanna.

Kristján Möller, samgönguráðherra, sagði á blaðamannafundinum fagna því að þrátt fyrir efnahagsástandið sé að miklu leyti haldið við fyrri umferðaröryggisáætlun þó nokkuð sé dregið úr umfangi hennar.

Segir hann mikilvægt að áfram sé haldið að sinna þeim þýðingarmiklu verkefnum sem fólgin eru í umferðaröryggisáætlun. Féð sem lagt sé í umferðaröryggismál skili sér margfalt end sé fé sem lagt er í forvarnir í umferðarmálum verðmæt fjárfesting en kostnaður vegna umferðarslysa nemi milljörðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert