Flestir greiða minna en 150 þúsund

Mánaðarleg greiðslubyrði bílalána er minni en 50 þúsund krónur hjá 70% heimila samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu starfshóps Seðlabankans og milli 50 og 100 þúsund krónur hjá 24% heimila. Greiðslubyrði af bílalánum hefur aukist um 0-50 þúsund krónur hjá 74% heimila. 68% heimila sem eru bæði með fasteignaveðlán og bílalán eru með heildargreiðslubyrði sem er minni en 150 þúsund krónur.

Greining starfshópsins byggir á gagnagrunni með fjárhagslegum upplýsingum um heimili sem Seðlabankinn hefur aflað í samstarfi við fjármálafyrirtæki á grundvelli leyfis Persónuverndar.

Segir í skýrslunni að verulegar líkur séu á að heimili lendi í greiðsluþroti þegar þau eru með háa greiðslubyrði í hlutfalli við tekjur og þrönga eiginfjárstöðu á sama tíma og þau lenda í áfalli vegna tekjumissis, atvinnuleysis, hækkun greiðslubyrðar eða erfiðra fjölskylduaðstæðna. 

2.600 heimili skulda meira en 50 milljónir í fasteignalán

Meirihluti heimila skuldar minna en 30 milljónir króna vegna fasteignaveðlána en taka verður tillit til þess að fasteignaveðlán lífeyrissjóðanna eru ekki meðtalin. Rúmlega 57 þúsund heimili skulda 0-19 milljónir í húsnæðislán en rúmlega 2.600 heimili skulda meira en fimmtíu milljónir króna af húsnæði sínu.

Tæplega 20% heimila eru þegar komin í neikvæða eiginfjárstöðu og 22% eru með afar takmarkaða jákvæða eiginfjárstöðu, samkvæmt skýrslunni. 60% heimila í þröngri eiginfjárstöðu skulda minna en 19 milljónir króna en þröng eiginfjárstaða endurspeglar annað hvort neikvæða eiginfjárstöðu eða minna en fimm milljónir króna í jákvæðri eiginfjárstöðu.

4,8% greiða yfir 250 þúsund af fasteignalánum á mánuði

42,3% heimila greiða 50-99 þúsund krónur á mánuði af fasteignaverðlánum en 75% heimila greiðir undir 100 þúsund krónur á mánuði af þeim. 4,8% heimila greiðir yfir 250 þúsund krónur af fasteignaveðlánum.

Í skýrslunni segir jafnframt að heimili með erlend fasteignaveðlán hafi tilhneigingu til þess að vera skuldsettari heldur en heimili með lán í krónum. Um 77% heimila í neikvæðri eiginfjárstöðu hafa einungis lán í krónum en 23% heimila eru með erlend lán þrátt fyrir að vera einungis 11% húseigenda. 

10% yfir sextugt sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu

46% þeirra sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu eru á aldrinum 30-44 ára. 29% eru á aldrinum 45-59 ára, 15% eru á aldrinum 18-29 ára en 10% þeirra eru komnir yfir sextugt.

Ef litið er til aukningar greiðslubyrðar fasteignalána sést að um 30% heimila sem eru eingöngu með fasteignaveðlán í erlendri mynt hafa orðið fyrir meira en 50 þúsund króna hækkun greiðslubyrðar. Hið sama á við um tæplega 18% heimila með blönduð fasteignaveðlán, það er bæði lán í krónum og erlendri mynt. 

Af 80 þúsund húsnæðiseigendum í gagnagrunninum þá eru 70 þúsund heimili með húsnæðisskuldir sem eru minni en 30 milljónir króna. Af 67 þúsund húseigendum með lán í krónum þá eru 11.200 heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.600 með meira en fimm milljónir í neikvæðri eiginfjárstöðu. 

Af 8.900 heimilum með lán í erlendri mynt eða blönduð lán þá eru 3.400 í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.400 með meira en fimm milljónir króna í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert