Arðgreiðsla móðgun við fiskvinnslufólk

Verkalýðsfélag Akraness skorar á aðalfund HB Granda að greiða þær launahækkanir sem áttu að koma 1. mars strax og sýna þannig í verki að góð fyrirtæki eru ekki rekin með hagnaði nema með góðum starfsmönnum. Formaður félagsins segir það móðgun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl.

Stjórn HB Granda hefur ákveðið í ljósi góðrar afkomu að leggja til á aðalfundi félagsins sem haldinn verður föstudaginn 3. apríl að greiddur verði 8% arður til hluthafa. Hagnaður af rekstri HB Granda árið 2008 nam 16 milljónum evra eða tæplega 2,3 milljörðum króna.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir afar ánægjulegt að HB Grandi skili svo miklum hagnaði á síðasta ári og þá sérstaklega í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi. Vilhjálmur minnir hins vegar á að í lok febrúar gekk samninganefnd Alþýðusambands Íslands frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um frestun til loka júní á endurskoðun kjarasamninga og þeim umsömdu launahækkunum sem áttu að koma til handa verkafólki 1. mars sl.

Verkalýðsfélag Akraness, ásamt fimm öðrum landbyggðarfélögum, var ósammála meirihluta verkalýðshreyfingarinnar um að fresta umsömdum launahækkunum og voru rök formanns Verkalýðsfélags Akraness þau að til væru fyrirtæki sem hæglega gætu staðið við gerða kjarasamninga, til að mynda fyrirtæki í fiskvinnslunni.

„Nú hefur komið í ljós að HB Grandi var rekinn með 2,3 milljarða hagnaði og ætlar að greiða hluthöfum 8% arð á næsta hluthafafundi. Á sama tíma var ekki var hægt að hækka laun fiskvinnslufólks um 13.500 krónur eins um hafði verið samið. Það er móðgun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við umsamdar launahækkanir,„ segir Vilhjálmur Birgisson.

Vilhjálmur bendir á að í dag hafi sérhæfður fiskvinnslumaður eftir 7 ára starf 154.500 krónur á mánuði fyrir fulla vinnu, án bónusgreiðslna. Ef þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars hefðu komið þá hefðu laun þessa einstaklings hækkað upp í 168.000 krónur á mánuði fyrir fullt starf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert