Danski sjóherinn hikar í samstarfi

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, að störfum á hafi úti.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, að störfum á hafi úti. mbl.is/Rax

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að þau sambönd sem Gæslan hafi komið sér upp við erlenda sjóheri í tengslum við leit og björgun á hafinu í kringum Ísland séu í uppnámi sökum þess að íslensk stjórnvöld hafi látið þau boð út ganga að Varnarmálastofnun sé fulltrúi landsins gagnvart öllum erlendum hernaðaryfirvöldum. Nú sé nánasti og mikilvægasti samstarfsaðili Gæslunnar, danski sjóherinn, orðinn hikandi við að eiga í beinum, milliliðalausum samskiptum við Landhelgisgæsluna og það valdi miklum áhyggjum.

Georg bendir á að herir fari eftir stífum samskiptareglum. Þau sambönd sem Gæslan hafi komið sér upp við erlenda heri, jafnvel með formlegum samningum, séu í mikilli hættu.

Samstarf við Dani mikilvægast

Gæslan er í samstarfi við norska sjóherinn, þann breska, kanadíska og bandaríska. Mikilvægasti samstarfsaðilinn er danski sjóherinn en Georg segir að samstarfið við Danina sé svo náið að stundum sé erfitt að greina á milli hvort tiltekin aðgerð sé í höndum Íslendinga eða Dana. Það hik sem sé komið á Danina vegna þess að Varnarmálastofnun sé kynnt sem fulltrúi Íslands gagnvart erlendum herjum, sé ekki bara óþægilegt heldur geti þetta ástand verið hreint og beint hættulegt. Hið sama gildi um samskipti við aðra sjóheri. „Við teljum að það sé algjörlega nauðsynlegt að við eigum beint og milliliðalaust samband við þessa aðila.“ Varnarmálastofnun sé óþarfur milliliður og eðlilegast sé að Landhelgisgæslan taki a.m.k. yfir þá starfsemi hennar sem felst í vöktun á hafinu og samskipti við sjóheri.

Georg tekur fram að samskiptin við Varnarmálastofnun séu góð en skipulag þessara mála sé „algalið“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert