Mikill verðmunur á fiski

mbl.is/Þorkell

Fiskbúðin Hafberg var oftast með hæsta verðið í nýrri könnun ASÍ eða í 8 tilvikum. Lægsta verðið var oftast að finna í Litlu fiskbúðinni, Miðvangi 41, Hafnarfirði eða í 9 tilvikum. Verðlagseftirlit ASÍ skoðaði verð á ferskum fiski í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Kannað var verð á 29 tegundum fiskmetis í fiskbúðum og fiskborðum stórmarkaða.

Mikill verðmunur á milli verslana

Segir á vef ASÍ að mikill verðmunur hafi verið á milli verslananna. Munur á hæsta og lægsta verði var í flestum tilvikum yfir 60% og á mörgum tegundum reyndist mun meiri verðmunur. Verðmunurinn var hlutfallslega mestur á þorskflökum með roði. Þau kostuðu 1.490 kr./kg. í fiskbúðinni Hafberg en en 690 kr./ kg. í fiskbúðinni Freyju. Verðmunurinn er 800 kr. eða 116%.

Minnstu munaði á verði á heilli slægðri ýsu sem kostaði 290 kr./kg. hjá fiskbúðinni Freyju og 299 kr./kg. hjá Fiskisögu Höfðabakka. Munurinn er 3,1%, en heila slægða ýsu var einungis að finna í þessum tveimur verslunum.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Nóatúni Hringbraut 119, Melabúðinni Hagamel 39, Fiskbúðinni Vegamót, Nesvegi 100, Fiskbúðinni Mosfellsbæ, Háholti 13 – 15, Fiskbúðinni, Freyjugötu 1, Fiskbúðinni Hafrúnu, Skipholti 70, Fiskisögu Höfðabakka 1,Hagkaupum, Kringlunni, Fiskikónginum, Sogavegi 3, Fiskbúðinni Hafberg, Gnoðavogi 44, Fylgifiskum ehf., Suðurlandsbraut 10, Gallerý kjöti, Grensásvegi 48, Fiskbúðinni Freyju, Bakkabraut 1 Kóp, Fiskbúðinni Hófgerði 30 Kóp., Fiskbúðinni Trönuhrauni 9 Hf., Litlu fiskbúðinni, Miðvangi 41 Hf., og Fjarðarkaupum Hólshrauni 1B Hf.

Gallerý fiskur neitaði þátttöku

Ekki reyndist unnt að mæla verð í Fiskbúð Einars, Arnarbakka 4 – 6 og Fiskbúðinni, Lækjargötu 34b Hafnarfirði, vegna þess að þær voru lokaðar vegna veikinda starfsmanns.

Gallerý fiskur við Nethyl heimilaði ekki aðilum frá verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslun sinni.

Verðkönnunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert