Segir ummæli forsætisráðherra misvísandi

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ummæli Jóhannu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í gær varðandi endurskipulagningu bankakerfisins hafi verið misvísandi. Af ummælum hennar megi ráða að endurskipulagningunni verði lokið í næsta mánuði, en skv. ákvörðunum FME séu veittir frestir fram yfir miðjan maí til að ljúka skilmálum við fjármálagerninga.

Birgir vísar til orða Jóhönnu á þinginu í gær, sem eru eftirfarandi:

„Mati á eignum nýju bankanna mun ljúka fyrir lok þessa mánaðar og það er vissulega mikilvægur áfangi. Samkvæmt áætlunum verður þetta mat síðan staðfest af óháðum ráðgjöfum um miðjan aprílmánuð og þar með verður skotið traustari stoðum undir starfsemi bankanna.

Það er síðan á grundvelli þessa mats sem ríkisstjórnin mun taka afstöðu til þess hversu miklum fjármunum bönkunum verða lagðir til til þess að skapa þeim svigrúm til að veita þeim sem á þurfa að halda eðlilega fjármálaþjónustu. Samkvæmt áætlunum er stefnt að því að endurfjármögnun bankanna verði lokið síðari hluta næsta mánaðar.“

Birgir segir að ummælin stangist í veigamiklum atriðum á við upplýsingar um þessi efni, sem finna megi á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (www.fme.is). Þar sé að finna ákvarðanir stofnunarinnar frá 6. mars. sl. um breytingu fyrri ákvarðana um tímafresti í í sambandi við uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Þar sé gefinn frestur til 18. maí varðandi skilmála þeirra fjármálagerninga sem nauðsynlegir séu til að ljúka frágangi þessara mála eftir að niðurstöður matsaðila liggja fyrir.

„Hér er auðvitað um verulegt misræmi að ræða. Mikilvægt er að kallað verði eftir upplýsingum um það hvort þessum verkefnum verði lokið fyrir lok næsta mánaðar eins og forsætisráðherra segir, eða í seinni hluta maímánaðar eða síðar, eins og ráða má af ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Því verður ekki trúað að forsætisráðherra hafi í gær vísvitandi verið að skapa óraunhæfar væntingar. Hins vegar er nauðsynlegt að varpa ljósi á það hvort forsætisráðherra var ekki kunnugt um ákvarðanir FME í þessu sambandi, sem teknar voru fyrir viku síðan. Slíkt væri auðvitað stóralvarlegt í ljósi þeirra miklu hagsmuna, sem tengjast þessu verkefni. Stjórnvöld eru í verulegum vanda ef hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gera í jafn mikilvægum málum,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert