Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri

Hellisheiðinni, Sandskeiði og Þrengslunum var lokað í gærkvöldi og voru björgunarsveitir önnum kafnar við að ferja þá sem að fastir sátu í bílum sínum. Veðrið var verst á Suðurlandi en óveður geisaði undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi. Björgunarsveitir voru á leið á Sólheimasand að aðstoða ökumenn í vanda er blaðið fór í prentun og einnig hafði Björgunarfélag Vestmannaeyja verið kallað út. Björgunaraðgerðir gengu þó hægt vegna veðurs.

Veðrið kom þá í veg fyrir að unnt væri að gera við bilun í stofnneti Mílu við Laugarbakka í gærkvöldi og í Bolungarvík voru hús rýmd vegna snjóflóðahættu, tengdri veðurbreytingunum. Á Sprengisandi komu björgunarsveitir tveimur frönskum ferðamönnum til aðstoðar. Parið var vel búið en hafði lent í vandræðum er það missti frá sér tjaldið í kolvitlausu veðri. Komu þau boðum til félaga síns í Frakklandi sem hafði samband við Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Þingmaður í árekstri

Árekstur varð á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum í gærmorgun er tveir bílar skullu saman í hálkunni. Eru bílarnir ónýtir en ökumenn og farþegar sluppu vel. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var ökumaður annars bílsins er hún var á heimleið eftir fundahöld á Akureyri vegna prófkjörs flokksins í NA-kjördæmi.

„Það var algjör gljá á brúnni,“ segir Arnbjörg og kveðst vera marin og með kúlu á höfði en hafa annars sloppið vel. „Manni bregður náttúrlega en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í slysi á mínum prófkjörsferðum.“ Áhyggjur hennar hafi frekar beinst að hinum bílnum þar sem lítið barn var meðal farþega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert