Þjóðarbúið mun ná sér á strik á ný

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á blaðamannafundi …
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Ómar

„Við sjáum enn ekki til lands í því hvenær hægt verður að fresta þingi,“  sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á vikulegum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu í dag. 

Á fundinum sátu fyrir svörum auk Jóhönnu þeir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Á fundinum voru kynnt gögn sem varpa stöðu á þjóðarbúskaparins og ríkisfjármálin. „Flestir eru sammála þeirri spá að íslenska hagkerfið nái sér á strik á ný, en árin 2009 og 2010 verði engu að síður mjög erfið fyrir“ bæði fyrirtæki og einstaklinga,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Þar kemur meðal annars fram að stutt sé í að stærsti verðbólgukúfurinn verði yfirstaðinn en jafnframt að atvinnuleysi verði verði enn töluvert á næsta ári þegar búist er við að hagkerfið vaxi á ný árið 2011.

Að mati fjármálaráðherra mun fjárfesting dragast saman um 30% á þessu ári, eftir 20% samdrátt á því síðasta, draga mun úr vexti samneyslu og einkaneyslu. Áætlaðar skuldir ríkissjóðs í lok ársins 2009 eru 1.100 milljarðar króna og í fjárlögum er gert ráð fyrir að vaxtagjöld verði 87 milljarðar króna á árinu.

Jóhanna kynnti vinnu ríkisstjórnarinnar að siðareglum fyrir ráðherra og embættismenn. Jafnframt var á ríkisstjórnarfundi samþykkt tillaga félagsmálaráðherra aðgerðaráætlun gegn mansali og kynnt verður á blaðamannafundi í félagsmálaráðuneytinu í dag kl. 15. 

Einnig var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun samþykkt áætlun um kynjaða hagstjórn. Steingrímur sagði að færa mætti rök fyrir því að slík sjónarmið væru aldrei brýnni en núna. Kynjuð hagfræði miðar að því að skoða ákvarðanir stjórnvalda og ólík áhrif þess á kynin. „Þetta er alþjóðlega viðurkennd aðferðarfræði og í raun löngu tímabært að Íslendingar taki á þessum málum,“ sagði Steingrímur. 

Ofurhagvöxtur ekki sjálfbær til lengdar

Á fundinum voru kynnt gögn sem varpa stöðu á þjóðarbúskaparins og ríkisfjármálin. Benti Steingrímur á að vöxtur þjóðarbúsins hefði verið 10% á sl. árum og raunar mætti ljóst vera að slíkt gæti ekki verið sjálfbært til lengri tíma litið. Sagði Steingrímur það von manna að verðbólgan lækki hratt á næstunni. Benti hann á að það væri enginn undirliggjandi verðbólguþrýstingur. Benti hann á að í samanburði við nágrannalöndin okkar hefðu Íslendingar skorið sig úr þegar kom að viðskiptajöfnuðinum sem var neikvæður sl. ár. 

Sagði Steingrímur að skuldastaða þjóðarbúsins hefði verið nálægt 200% af vergri landsframleiðslu í árslok 2008. Sagði hann stefnt að því að ríkissjóður skili afgangi árið 2013. 

„Flestir eru sammála þeirri spá að íslenska hagkerfið nái sér á strik á ný, en árin 2009 og 2010 verði engu að síður mjög erfið fyrir“ bæði fyrirtæki og einstaklinga,“ sagði Steingrímur og vísaði þar til spár fjármálaráðuneytisins, Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Þetta er tilraun til þess að standa við fyrirheit okkar um að upplýsa þjóðina um það hvernig við stöndum,“ sagði Steingrímur að kynningu lokinni. Þess má geta að kynninguna má nálgast á vefnum hér

Búast við stýrivaxtalækkun

Á blaðamannafundinum var spurt hvort og hversu mikilli stýrivaxtalækkun búast mætti við nk. fimmtudag. Viðskiptaráðherra sagði ljóst að búast mætti við lækkun, en minnti jafnharðan á að ákvörðunin væri í höndum peningastefnunefndar en ekki stjórnvalda. 

Ákvörðunin siðlaus

Jóhanna var spurð um ákvörðun stjórnar HB Granda, sem leggur til að hluthöfum verði greiddur 8% arður, og hvort búast mætti við einhverjum viðbrögðum frá ríkisstjórninni. Sagðist hún þeirrar skoðunar að ákvörðun stjórnar HB Granda væri siðlaus, á sama tíma og verið væri að biðja launþega um að fresta kjarasamningsbundnum launahækkunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert