Matjurtagarðar rjúka út

Svo mikil eftirspurn hefur verið eftir matjurtargörðum sem auglýstir voru á vegum Akureyrarbæjar í síðustu viku að ákveðið hefur verið að fjölga görðunum fyrir næsta sumar úr hundrað í tvö hundruð.  

Hundrað garðar voru auglýstir á miðvikudaginn í síðustu viku og voru þeir allir bókaðir á innan við einum degi. Síðan þá hafa sextíu einstaklingar skráð sig á biðlista eftir garði.  

Jóhann Thorarensen, hjá Ræktunarstöð Akureyrarbæjar, segir að brugðist verði við þessari miklu eftirspurn með því að fjölga görðunum og að nýju görðunum verði komið fyrir á svipuðum slóðum og þeim görðum, sem þegar hefur verið úthlutað. 

Garðarnir verða staðsettir suður af Krókeyri og verða nýju garðarnir skammt frá þeim sem upphaflega var boðið upp á. Boðið var upp á bæði 30 fm og 15 fm garða í síðustu viku en garðarnir sem bætt verður við  verða allir 15 fm.

Leigan fyrir sumarið er 10.000 krónur fyrir 30 fm garð en 6.000 krónur fyrir 15 fm garð. Innifalið í því verði er garðurinn, útsæði, kál og fræ auk leiðbeininga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert