Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir

Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og frambjóðandi Vinstri grænna, leggur til að höfuðstóll húsnæðislána verði lækkaður um fjórar milljónir króna. Hún segir alveg ljóst að niðurfelling skulda muni falla á ríkið eða á landsmenn. Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að 20% af skuldum heimila og fyrirtækja verði felldar niður og Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið í svipaðan streng. Pistil Lilju er að finna á vefnum Smugan.is.

Kostar 300 milljarða króna

Hún segir að skuldaniðurfellingu fyrirtækja er ekki hægt að meðhöndla án þess að skoða hvert og eitt fyrirtæki, þar sem sum þeirra eru ekki lífvænleg eða eru með neikvætt sjóðsstreymi. Það þarf því að beita sértækum úrræðum til að taka á skuldavanda fyrirtækja sem nú þegar er hafið innan bankanna og með stofnun eignaumsýslufélags ríkisins.

Hins vegar er mikilvægt að tekið sé á skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum í anda norræna velferðarkerfisins til að koma til móts við meirihluta skattgreiðenda sem svíður sáran að þurfa alfarið að bera kostnaðinn af verðbólguskotinu í gegnum verðtryggingu húsnæðislána.  Hér á eftir verður tillaga reifuð um almenna aðgerð vegna skuldavanda heimilanna sem grasrót Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs hefur rætt að undanförnu. 

„Verðbólguskotið á síðasta og þessu ári hefur leitt til hækkunar á höfuðstól og afborgunum húsnæðislána og leita verður leiða til að dreifa þeim kostnaði betur milli lántakenda og lánveitenda. Hækkun vísitölu neysluverðs á síðasta ári og þessu er talin geta orðið um 27%. Meðalupphæð húsnæðislána er tæpar 30 milljónir og þau munu því hækka um 8 milljónir króna vegna verðbólgunnar á þessu og síðasta ári.

Ef sanngirni yrði gætt milli lántakenda og lánveitenda í að dreifa byrðum fjármálakreppunnar ætti höfuðstóll og afborganir verðtryggðra húsnæðislána ekki að hækka nema um 13,5%. Slík aðgerð myndi í raun fela í sér 13,5% niðurfellingu skulda eða að meðalupphæð fasteignlána hækkaði aðeins um 4 milljónir í stað 8 milljóna. Hins vegar er ekki réttlátt að þeir sem skulda mest og eiga mest fái mestu niðurfærsluna á húsnæðisskuldum sínum, þ.e. er meira en 4 milljónir.

Ég legg til að ríkið fjármagni 4 milljóna króna niðurfærslu á höfuðstól allra húsnæðislána landsmanna. Almenn aðgerð sem þessi er í anda norræna velferðarkerfisins, þar sem leitast er við að koma sem flestum til aðstoðar og síðan er skattkerfið notað til að ná fram jöfnuði," skrifar Lilja og bætir við að tillagan um 4 milljón króna niðurfærslu á skuldum heimilanna muni kosta ríkið um 300 milljarða sem fjármagna verður með m.a. aukinni skattheimtu þeirra sem meira hafa á milli handanna."

Pistill Lilju á Smugunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert