Ögmundur: Viðfangsefnið er tröllaukið

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn

„Það má ekki gerast, en er því miður að staðreynd, er að ummönnunarstéttum, kvennastéttum, er vísað út á gaddinn en lausna leitað þar sem karlastéttir sitja í forgrunni,“ sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, í ávarpi sínu á morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins í morgun.

Yfirskrift fundarins var „Heilbrigðisþjónusta á tímamótum: Ný viðhorf - nýjar lausnir - aukinn jöfnuður“ og er hann sá fyrsti af þremur sem ráðherrann boðar til þar sem fundarefni eru þau tímamót sem nú blasa við í heilbrigðissþjónustunni.

Ögmundur sagði að heilbrigðiskerfinu væru nú reistar miklar hagræðingarkröfur sem tæknilega erfitt væri að ráðast í þar sem markmiðið væri eftir sem áður að byggja öflugt og gott heilbrigðiskerfi. „Við þurfum að skera niður um tæpa 7 milljarða króna í heilbrigðiskerfinu á þessu ári og viðfangsefnið er tröllaukið.“ Hann kallaði því eftir nýjum sjónarmiðum og hugarfari hjá starfsfólki heilbrigðisgeirans til að leita lausna.
„Það er svolítið mótsagnakennt að sitja við ríkisstjórnarborð og skýra frá því að fólk sé að missa vinnuna í heilbrigðisþjónustunni vegna niðurskurðar og samdráttar, á sama tíma og við leitum lausna í atvinnumálum, til atvinnusköpunar.“

„Heilbrigðiskerfið er lífæðin í samfélagi okkar og forsenda jafnaðarsamfélags. Með það í huga að við þurfum að standa vörð um starfsöryggi ummönnunarstéttanna, þá kalla ég eftir því að við tökum öll þátt í umræðu um heilbrigðisþjónustuna sem hluta af vinnumarkaði á komandi vikum og mánuðum, ekki síst nú þegar í hönd fer ný fjárlagagerð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert