Þorsteinn fékk níu ára dóm

Hasshlassið og önnur fíkniefni sem fundust í húsbíl Hollendingsins í …
Hasshlassið og önnur fíkniefni sem fundust í húsbíl Hollendingsins í norrænu. mbl.is/Júlíus

Þorsteinn Kragh var í morgun dæmdur í níu ára fangelsi fyrir innflutning á 192 kílóum af kannabisefnum og 1,3 kílóum af kókaíni á árinu 2008, í þeim tilgangi að dreifa efnunum og selja þau.

Ásamt Þorsteini var Jacob Van Hinte, 71 árs gamall hollendingur, dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi. Að hluta til varð það Van Hinte til hjálpar að ekki lágu fyrir refsidómar frá spænskum dómstólum í málum sem hann hefur verið dæmdur í. Ekki var því beitt ítrekunaráhrifum við ákvörðun refsingar hans.

Efnin fundust við komu farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 10. júní 2008, falið í sérútbúnum geymsluhólfum í húsbifreið af gerðinni Iveco. Samkvæmt dómnum telst sannað að á fyrri hluta ársins 2008 lögðu Þorsteinn Kragh og Jacob Van Hinte á ráðin um flutning efnanna frá Hollandi til Íslands og hittust þeir í því skyni í Hollandi auk þess að vera í símasambandi. Ákærði Þorsteinn annaðist fjármögnun og kaup fíkniefnanna og hugðist móttaka þau á Íslandi en ákærði Jacob móttók efnin í Hollandi og flutti þau þaðan í bifreiðinni landleiðina til Danmerkur og þaðan með ferjunni til Íslands.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir var saksóknari í málinu, en Helgi Jóhannesson hélt uppi vörnum fyrir Þorstein. Páll Arnór Pálsson var verjandi Jacobs Van Hinte. Málið dæmdu héraðsdómararnir Guðjóns St. Marteinsson, Páll Þorsteinsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert