Sögðu eitt - gerðu allt annað

Athafnir Seðlabankans voru ekki í samræmi við alvarlegar upplýsingar um íslenska bankakerfið sem komu fram á minnisblaði bankans frá því í febrúar.  Jóhanna segist telja að Seðlabankinn hafi sjálfur stungið upp ferð formanna stjórnarflokkanna sem vörðu íslenska bankakerfið mánuði eftir að minnisblaðið var skrifað.

Jóhanna Sigurðardóttir segist ekki hafa séð minnisblað Seðlabankans frá því í febrúar í fyrra þar sem komu fram upplýsingar um slæma stöðu bankanna  og sérlega er tilgreint hættuspil Kaupþings og Glitnis.

Jóhanna segir að upplýsingarnar á minnisblaðinu hafi verið mjög alvarlegar og þeir sem hefðu haft með efnahagsmálin að gera hefðu að minnsta kosti átt að vita af tilvist þess. Fram hefur komið að einungis þrír ráðherrar, Geir H. Haarde, Árni M Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vissu um blaðið.

Hún segir þó að innihaldið stangist á við viðbrögð Seðlabankans í framhaldinu, til að mynda, þá ákvörðun að aflétta bindiskyldu á útibú erlendis, einungis mánuði síðar, sem hafi hvatt til þess að auka við Icesave reikningana  og skýrslunni um fjármálastöðugleikann í maí  þar sem kemur fram að bankakerfið sé traust.

Í mars í fyrra héldu formenn stjórnarflokkanna líka í sérstaka ferð til Danmerkur og Bandaríkjanna til að verja íslensku bankanna og sannfæra efasemdamenn um styrk þeirra. Jóhanna segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde verði sjálf að svara fyrir ábyrgðina á þeirri ferð, þau hafi tekið ákvörðun um að gera þetta með þessum hætti. Hún segist þó ekki muna betur en uppástungu um slíkt ,,roadshow" hafi verið að finna á þessu sama minnisblaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert