Hælarnir voru niðri í viðskiptaráðuneytinu

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir

„Af minnisblaðinu öllu má ráða að viðskiptaráðuneytið var ekki að liðka fyrir því að sérstakur saksóknari fengi miklar heimildir,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, við 2. umræðu um frumvarp til laga um auknar valdheimildir sérstaks saksóknara.

Þar vitnaði hún í minnisblað frá ráðuneytinu um frumvarp dómsmálaráðherra til laga um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, frá því í haust.

Siv sagði ljóst að „hælarnir hefðu verið niðri“ í viðskiptaráðuneytinu gagnvart valdheimildum saksóknarans. Gagnrýnt hefði verið að valdmörk milli stofnana yrðu óskýr og sagt mikilvægt að þeir aðilar sem létu Fjármálaeftirlitið fá viðkvæm trúnaðargögn, sem bankaleynd kynni að hvíla á, gætu áfram treyst því að um slík gögn gilti áfram þagnarskylda. Eðlilegra væri að saksóknarinn aflaði sér sjálfur slíkra gagna.

Sagði Siv að í minnisblaðinu væri svart á hvítu verið að segja, af hálfu viðskiptaráðuneytisins, að ef bankaleynd hefði hvílt á málum yrðu fjármálafyrirtæki að geta treyst því að á slíkum gögnum ríkti áfram þagnarskylda.

Tók Siv því undir með Birni Bjarnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, frá því í fyrstu umræðu um málið, þar sem hann talaði um andstöðu af hálfu viðskiptaráðuneytisins. „Það er greinilega alveg rétt sem kom fram hjá Birni Bjarnasyni að viðskiptaráðuneytið vildi ekki veita heimildir, vildi halda sig við þagnarskyldu og ekki veita sérstökum saksóknara þessar heimildir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert