Sendiráði Íslands í Managua lokað 1. ágúst

Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands …
Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands svara spurningum fréttamanna að fundi loknum.

Vegna þeirra áhrifa sem alþjóðlega fjármálakreppan hefur haft á efnahag Íslands hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að loka sendiráði sínu í Managua frá og með 1. ágúst 2009. Íslendingar munu standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart Níkaragva í samræmi við rammasamkomulag milli ríkisstjórna landanna sem undirritað var í Managua 26. júní 2006 og staðfest af þinginu 2007.

Í tilkynningu Þróunarsamvinnustofnunar segir að Samuel Santos utanríkisráðherra Níkaragva og Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hafi átt fund í Managua á þriðjudag vegna þessarar ákvörðunar. Sendiráðið í Managua er jafnframt umdæmisskrifstofa Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Auk þeirra sátu fundinn Valdrack Jaentschke aðstoðarutanríkisráðherra þróunarmála, Roberto Leal framkvæmdastjóri skrifstofu Evrópumála, Geir Oddsson umdæmisstjóri ÞSSÍ í Níkaragva og Gerður Gestsdóttir verkefnastjóri félagslegra verkefna.

Í lok fundarins var birt eftirfarandi sameiginleg yfirlýsing:

Utanríkisráðuneyti ríkisstjórnar sátta og þjóðareiningar og sendiráð Íslands í Níkaragva gera heyrin kunnugt að vegna þeirra áhrifa sem alþjóðlega fjármálakreppan hefur haft á efnahag Íslands hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að loka sendiráði sínu í Managua frá og með 1. ágúst 2009.

Ríkisstjórn Íslands mun standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart Níkaragva í samræmi við rammasamkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Níkaragva sem undirritað var í Managua 26. júní 2006 og staðfest af þinginu 2007.

Þróunarsamvinna Níkaragva og Íslands styrktist árið 2008 þegar fyrsti samráðsfundur landana var haldinn. Aðstoð Íslands hefur verið í geirum orku, menntunar og heilbrigðismála.

Níkaragvanska þjóðin og ríkisstjórn hennar þakkar vinaþjóð sinni á Íslandi fyrir þá samstöðu sem hún hefur sýnt á þessum árum, sem við munum halda áfram að þróa í diplómatískum samskiptum okkar, bæði tvíhliða og marghliða. Á sama tíma óskum við þess að sem fyrst finnist lausn á þeim efnahagslegu vandamálum sem þessi vinaþjóð stendur frammi fyrir og óskum þess að í nálægri framtíð getum við aftur notið stuðnings og samvinnu við Ísland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert