Metaðsókn hjá Samhjálp

Máltíð undirbúin
Máltíð undirbúin mbl.is/Ómar

Metaðsókn var á kaffistofu Samhjálpar nú um miðjan mars en þá komu einn daginn 190 manns. Þar með var metið frá miðjum febrúar slegið þegar 170 gestir komu einn daginn til þess að fá ókeypis kaffi og bakkelsi og eða heita máltíð.

Heiðar Guðnason, forstöðumaður Samhjálpar, segir mun þyngra að draga vagninn nú eftir að kreppan skall á. Gestir kaffistofunnar, þar sem brauð og bakkelsi er á borðum allan daginn, voru að jafnaði 70 á dag fyrir kreppuna en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt síðan. Þeim sem koma í kaffi hefur ekki bara fjölgað, heldur einnig þeim sem koma til þess að fá heita máltíð ókeypis.

Í janúar síðastliðnum komu um 3200 manns á kaffistofuna og þar af komu rétt rúmlega 1.000 í mat. ,„Ef það heldur áfram að fjölga, sem nú lítur út fyrir, verða heimsóknirnar í ár um 38 þúsund. Árið 2007 voru heimsóknirnar á kaffistofuna 21 þúsund en í fyrra voru þær 27 þúsund,“ segir Heiðar í viðtali við mbl.is.

Að sögn Heiðars hefur framlag birgja minnkað að undanförnu. „Hins vegar taka sumir ákaflega vel á með okkur og við fengum tvo fulla sendibíla hjá einum um daginn. En við höldum samt ekki orðið í við þetta lengur. Við þurfum að sækja um aukna aðstoð frá borgaryfirvöldum og treystum auk þess á birgja. Þeir eru okkur afar mikilvægir.“

Heimasíða kaffistofu Samhjálpar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert