Vilja breyta skilgreiningu hjónabandsins

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is / Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða.  

Þetta kemur fram í drögum að ályktunum flokksins um fjölskyldumál. Sjálfstæðisflokkurinn telur óeðlilegt að forstöðumenn trúfélaga hafi á sínum höndum þann löggjörning sem hjónavígsla felur í sér. Sjálfstæðismenn vilja að sá gjörningur sé í höndum ríkisvaldsins og þá munu trúfélög hafa sjálfdæmi um það hvers konar sambúðarform hljóta blessun innan vébanda þeirra.

Önnur úrræði en fangelsi
Af öðrum málefnum sem snerta fjölskyldumál vilja sjálfstæðismenn að hugað verði að öðrum úrræðum en fangelsun fyrir afbrotamenn undir lögaldri.

Flokkurinn vill jafnframt auka fjármálafræðslu fyrir ungt fólk gegnum skóla og heimili og að með sparnaðarhvötum verði ýtt undir eiginfjármyndun fólks áður en það ræðst í kaup á sinni fyrstu íbúð. Flokkurinn vill jafnframt halda áfram endurskoðun gjaldþrotalaganna með það að markmiði að auðvelda fólki greiðsluaðlögun.

Í ályktuninni segir að laun eigi að endurspegla hæfni og að það sé óviðunandi að enn sé við lýði óútskýrður launamunur karla og kvenna. Á þessum vettvangi þurfi ríkið að fara á undan með góðu fordæmi og tryggja að hvergi í hinu opinbera kerfi líðist óútskýrður launamunur kynjanna. Þessi orð má skoða í því ljósi að Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn frá 1991-2009.

Sjálfstæðisflokkurinn telur það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla og að kynin taki jafna ábyrgð á heimilinu og barnauppeldi. Fæðingarorlofslögunum er meðal annars ætlað að ná þessu markmiði. Þess má einnig geta að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna, sem í daglegu tali nefnast jafnréttislög, sem sett voru árið 2000 var einmitt ætlað að treysta jafnrétti kynjanna í sessi. Það er umdeilt hvort slíkt hafi tekist til fulls.

Sameiginleg forsjá
Sjálfstæðismenn vilja breyta barnalögum með þeim hætti að foreldrajafnrétti verði tryggt. Nauðsynlegt sé að dómarar fái heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.

Einkaaðilar hafa tekið við málefnum innflytjenda
Sjálfstæðisflokkurinn varar við ríkisstofnanavæðingu innflytjendamála því ljóst sé að einkaaðilar hafi að miklu leyti tekið málefni innflytjenda upp á sína arma undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert