Ábyrgðarmennirnir burt

Lúðvík Bergvinsson.
Lúðvík Bergvinsson. mbl.is

„Ég segi örugglega já,“ sagði Lúðvík Bergvinsson við afgreiðslu frumvarps hans til laga um ábyrgðarmenn. Frumvarpið var samþykkt með 32 samhljóða atkvæðum á þingi í dag, en Lúðvík hefur lagt málið fram í hartnær áratug á þingi. Málið hefur hins vegar ekki fengið brautargengi fyrr en nú. Nú er hins vegar mikil samstaða um málið.

„Afgreiðsla þessa máls skiptir miklu máli fyrir íslenskt fjármálalíf og er stór liður í að breyta þeim kúltúr sem hefur þróast hér til áratuga, að þeir sem stunda viðskipti beri ekki ábyrgð á þeim sjálfir, heldur kalli til þriðja aðila til að bera á þeim ábyrgð,“ sagði Lúðvík. Þetta væri í góðu lagi í einstökum tilvikum, en hafi hins vegar orðið að meginreglu í viðskiptum hér á landi.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði frumvarpið koma í veg fyrir ósið sem verið hafi við lýði á Íslandi og rústað fjölskylduböndum um árabil. Skuldir hafi oft fallið á ábyrgðarmenn án þess að þeim hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim möguleika til að byrja með.

Frumvarpið er ekki afturvirkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert