„Engin ástæða til að senda ekki fullorðna til Grikklands"

Haukur Guðmundsson, forstjóri Útlendingastofnunar, segist ekki telja ástæðu til að svara ásökunum um að ákvarðanir stofnunarinnar byggist á kynþáttafordómum.

Fólk þurfi ekki annað en að kynna sér mál og uppruna þeirra einstaklinga sem stofnunin hafi fjallað til að sjá að ákvarðanir hennar séu ekki teknar á grundvelli kynþáttar. 

Hópur hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra afhenti Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra í morgun kröfur um breytta starfshætti í málefnum hælisleitenda hér á landi og að hælisleitendur verði ekki sendir héðan til Grikklands.

Vísa þeir til þess að Rauði Krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna leggjast gegn því að aðildarríki Schengen sendi hælisleitendur til Grikklands á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar. 

Haukur sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að athuganir nokkurra virtra aðila hafi leitt í  ljós að engin ástæða sé til að senda ekki fullorðna  hælisleitendur til Grikklands. 

„Frá því að Flóttamannahjálpin sendi tilmælin frá sér í apríl á síðasta ári hefur einungis eitt ríki, Noregur, hætt tímabundið að senda hælisleitendur til Grikklands. Þar kynntu menn sé málið og tóku síðan aftur að senda fólk þangað,” sagði hann. 

Þá sagði hann sænskan dómstól, sem hafi lögsögu í slíkum málum, hafa fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu seint á síðasta ári að ekkert mælti gegn því að senda fólk til Grikklands. Í desember hafi síðan Mannréttindadómstóll Evrópu komist að sömu niðurstöðu. 

„Það hefur verið fjallað um þetta mál mjög víða og niðurstaðan er einhljóða sú að það sé engin ástæða til  að senda ekki fullorðna einstaklinga til Grikklands,” sagði hann.

Hann sagði skoðanir þó nokkuð skipar á því að senda börn, barnafjölskyldur og fólk úr öðrum viðkvæmum hópum til Grikklands, en það fólk sem til standi að senda héðan til Grikklands tilheyri ekki neinum slíkum hópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert