Kona í barnsnauð á fjöllum

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint mbl.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitirnar Gerpir frá Neskaupstað og Brimrún frá Eskifirði voru kallaðar út um klukkan 4:30 í nótt vegna konu sem sat föst í bíl á  Oddsskarði, Eskifjarðarmegin, en hún var á leið á sjúkrahús til að fæða barn.

Samkvæmt upplýsingum Slysavarnafélagsins Landsbjargar var björgunarsveitabíll sendur frá Eskifirði með lækni og var hann kominn að bíl konunnar um klukkustund síðar. Var ekið með hana áleiðis til Neskaupstaðar og við Háhlíðarhorn mætti björgunarsveitin Gerpir þeim með tvo björgunarsveitabíla, sem í voru læknir og ljósmóðir. Þá voru snjóplógur og snjótroðari frá skíðasvæðinu á Neskaupstað með í ferð.

Færð var afar slæm og var snjótroðarinn nýttur til að troða svæði í kringum veginn þannig að hægt væri að snúa bílunum við. Ekki vildi hins vegar betur til en svo að snjóplógurinn festist og þurfti að nýta troðarann til að losa hann.  Veður var afleitt á svæðinu en vindhraði var um 48 m/sek og allar aðstæður mjög erfiðar.

Í Oddsskarðsgöngum var konan færð yfir í bíl frá Gerpi og ekið með hana á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þangað kom hún klukkan 7:15 í morgun og lítil stúlka fæddist klukkan 8:15. Heilsast þeim mæðgum vel.

Eftir að fyrri björgunarsveitabíllinn fór af stað með konuna til byggða tók við áframhaldandi  basl hjá Gerpismönnum þar sem jeppi hópsins affelgaðist. Vegna veðurs var ákveðið að senda fyrri bílinn aftur á Oddskarðið með varadekk í stað þess að freista þess að koma dekkinu á felguna aftur.

Er því verki nýlega lokið og hefur gengið á ýmsu. Hefur jeppinn t.d. fokið af tjakknum tvívegis. Vegna veðurofsans var gripið til þess ráðs að nota snjótroðarann til að skýla jeppanum og halda honum föstum með spilinu á meðan skipt var um dekkið. Björgunarsveitin er nú á leið til byggða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert