FME fái ekki heimild til að falla frá saksókn

Viðskiptanefnd Alþingis svo gott sem slátraði frumvarpi Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um fjármálamarkaðinn. Nefndin leggur til að allar greinar frumvarpsins, sem lúta að heimildum Fjármálaeftirlitsins, FME til að falla frá saksókn vegna brota á lögum um fjármálamarkað, verði felldar út. Ekki eigi að vera unnt að semja sig frá ákvörðun um saksókn vegna slíkra brota.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra eru gerðar tillögur að breytingum á nokkrum lögum er varða fjármálamarkaðinn. Frumvarpið tekur til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, verðbréfaviðskipti, verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, vátryggingarstarfsemi, miðlun vátrygginga, rafræna eignarskráningu, kauphallir og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæðum um niðurfellingu. Með niðurfellingu er átt við að viðurlög eru milduð eða felld niður að fullu þegar fyrirtæki eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila við rannsókn málsins. Reglum sem þessum hefur hingað til verið beitt með góðum árangri á sviði samkeppnisréttar og þær verið taldar mjög mikilvægar í því skyni að upplýsa um ólögmætt samráð.

Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að FME verði heimilt að lækka sektir eða fella sektir niður ef einstaklingur eða fyrirtæki er fyrstur til að koma fram með upplýsingar  eða gögn sem geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að FME geti ákveðið að kæra brot ekki til lögreglu af sömu ástæðum.

Umdeildar breytingar

Viðskiptanefnd Alþingis segir ljóst að svo umfangsmiklar breytingar, sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og felast í því að eftirlitsstofnun geti ákveðið að kæra tiltekin brot ekki til lögreglu, séu umdeildar. Með lögfestingu þeirra yrði úrslitavald um það hvort brot á fjármálamarkaði yrðu rannsökuð af lögreglu og sættu eftir atvikum ákærumeðferð af hálfu ákæruvalds, fært í hendur eftirlitsstofnunar.

Viðskiptanefnd bendir á að brot sem falla undir eftirlit FME kunni að vera alvarleg og geti einnig varðað við ákvæði annarra laga, svo sem almennra hegningarlaga eða ákvæði annarra sérrefsilaga.

Þá gangi ákvæðin lengra en ákvæði laga um embætti sérstaks saksóknara sem ekki verður beitt nema að uppfylltum ströngum skilyrðum og samkvæmt rökstuddri beiðni sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara. Viðskiptanefnd áréttar að samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds.

Ekki verði hægt að semja sig frá saksókn

Viðskiptanefnd telur að verði frumvarp viðskiptaráðherra óbreytt að lögum, verði lögfest frávik frá því að meiri háttar brot gegn lögum á fjármálamarkaði sæti kæru til lögreglu. Nefndin álítur að brot gegn samkeppnislögum séu eðlisólík brotum á fjármálamarkaði að því leyti að þau eru til þess fallin að hafa í för með sér efnahagslegan skaða fyrir bæði neytendur og atvinnulíf.

Viðskiptanefnd telur að almennt sé ekki og eigi ekki að vera unnt að semja sig frá ákvörðun um saksókn. Framferði hins brotlega geti þó haft áhrif á refsiviðurlög þannig að refsing verði dæmd vægari en ella. Nefndin telur því að ákvarðanir um niðurfellingu saksóknar ætti að taka innan refsivörslukerfisins.

Í meðförum viðskiptanefndar kom fram að óljóst þætti hver áhrif hinna umdeildu ákvæða frumvarpsins ættu að vera. M.a. var upplýst að einatt reyndi ekki á reglur um niðurfellingu fyrr en hinn brotlegi er kominn í það slæma stöðu að hann á varla annarra kosta völ en að veita yfirvöldum upplýsingar um mál.

Átta greinar af sextán burt

Þá segir viðskiptanefnd að ekki finnist fordæmi erlendis fyrir niðurfellingarreglum vegna brota á fjármálamarkaði. Nefndin telur að þrátt fyrir að einhver brot kunni að upplýsast ef mælt verður fyrir um niðurfellingu í lögum, séu niðurfellingarákvæði afar varhugaverð.

Viðskiptanefnd leggur því til að allar greinar sem lúta að niðurfellingu veðri felldar úr frumvarpinu, eða 8 af 16 greinum frumvarpsins. Hins vegar telur nefndin eðlilegt að FME hafi heimildir til að lækka stjórnvaldssektir eða falla frá þeim. Úrræði af því tagi geti leitt til þess að mál verði upplýst án þess að vikið sé frá meginreglum um meðferð ákæruvalds.

Frumvarp viðskiptaráðherra

Álit viðskiptanefndar Alþingis

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert