Lögðust gegn sölu SPRON

Nýi Kaupþing banki hótaði skilanefnd SPRON lögsókn vegna sölunnar á eignum SPRON, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Eru stjórnendur bankans ósáttir við að verið sé að selja eignir sem hafa verið veðsettar bankanum, en MP banki keypti í gær hluta útibúanets SPRON og Netbankann, nb.is, á 800 milljónir króna.

„Það sem við höfum sagt og bent á er að með ákvörðun FME hafa öll innlán viðskiptavina verið flutt. Það er greitt fyrir innlánin með skuldabréfi sem tryggt er með öllum eignum SPRON. Við viljum sjá að það sé búið að tryggja að allar eignir dugi fyrir innlánum. Þess vegna mæltumst við til þess að gengið yrði frá skuldabréfinu áður en hugað yrði að sölu eigna,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings.

Kaup MP banka á SPRON endurspegla sókn bankans á viðskiptabankamarkað, en bankinn fékk viðskiptabankaleyfi á síðasta ári. Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, ætlar að viðhalda vörumerki SPRON og verða útibúin á Seltjarnarnesi, í Borgartúni og á Skólavörðustíg rekin áfram. Fjörutíu og fimm starfsmenn sem unnu í útibúunum munu halda vinnu sinni. Margeir segir ekki loku fyrir það skotið að fleiri starfsmönnum verði boðin vinna hjá hinu nýja fyrirtæki. „Þetta eru gleðitíðindi,“ segir Ólafur Már Svavarsson, formaður starfsmannafélags SPRON.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert