Landsvirkjun segir fjárhagsstöðuna trausta

Landsvirkjun segir, að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé afar traust. Rekstur fyrirtækisins hafi skilað tæplega 185 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2008 til fjárfestinga og til að greiða niður skuldir. Hins vegar geri staða og orðspor Íslands á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum Landsvirkjun og öðrum íslenskum aðilum erfitt fyrir um þessar mundir.

Yfirlýsing Landsvirkjunar er eftirfarandi: 

„Í tilefni af fréttum RÚV um hæfi Landsvirkjunar til að greiða af lánum sínum vill fyrirtækið taka fram að fjárhagsstaða þess er afar traust. Rekstur fyrirtækisins skilaði tæplega 185 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2008 til fjárfestinga og til að greiða niður skuldir. Einnig hefur fyrirtækið þegar tryggt fjármagn til að standa við allar núverandi skuldbindingar fyrirtækisins þar til í árslok 2010 eins og fram kemur í ársreikningi Landsvirkjunar.

Það er fjármálakreppa í dag. Fyrirtæki um allan heim, stór sem smá, leitast við að hagræða í rekstri og draga úr fjárfestingum í því skyni að auka lausafé. Þau eru öll að undirbúa hvernig hægt sé að mæta afborgunum og endurfjármögnun á lánum. Það þykir gott ef lausafjárstaða fyrirtækja er trygg til næstu 6 mánaða. Staða Landsvirkjunar er mun betri en flestra annarra fyrirtækja, innlendra og erlendra, hvað þetta varðar.

Um þessar mundir skiptir aðgangur að lausafé öllu um efnahagslega lífsvon fyrirtækja og þjóða. Staða og orðspor Íslands á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum gerir Landsvirkjun og öðrum íslenskum aðilum erfitt fyrir um þessar mundir. Ekki er sérstakt tilefni nú til að óttast að það ástand ríki um ókomin ár.

Staða Landsvirkjunar er öfundsverð því fá ef nokkur íslensk fyrirtæki hafa jafn trausta lausafjárstöðu. Af fréttum RÚV mátti skilja að aðstæður eftir 2010 væru sérstakt áhyggjuefni og vandamál fyrir Landsvirkjun nú. Svo er alls ekki."

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert