200 milljónir gegn veði í sveitasetri

Sumarhús Sigurðar Einarssonar að Veiðilæk er enn í byggingu.
Sumarhús Sigurðar Einarssonar að Veiðilæk er enn í byggingu.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, skuldar Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) 200 milljónir króna gegn veði í hálfbyggðu sveitasetri sínu við Veiðilæk í Borgarfirði. Tryggingarbréf þar sem setrið er sett að veði fyrir skuldinni er útgefið 29. desember 2008, eða fyrir um þremur mánuðum.

Samkvæmt ársreikningi félags í eigu Sigurðar, Veiðilæks ehf., sem stofnað var utan um byggingu setursins, hafði Sigurður sjálfur lánað 218 milljónir króna til framkvæmdarinnar í árslok 2007.

VÍS er að fullu í eigu Exista, sem var stærsti eigandi Kaupþings fyrir bankahrunið í október. Hluthafar Exista skipta þúsundum.

Morgunblaðið sendi Sigurði spurningar um veðsetninguna í tölvupósti í gær. Þar var hann meðal annars spurður hvort skuld hans við VÍS væri vegna lánveitinga til hans og hvort hann hefði endurgreitt sér þá upphæð sem hann hafði lánað Veiðilæk ehf. vegna byggingar sveitasetursins. Í svari Sigurðar segir að hann líti á persónulegar fjárreiður sínar sem einkamál og að hann sjái „ekki ástæðu til að fjalla um þær opinberlega. Bygging hússins að Veiðilæk og málefni einkahlutafélagsins sem stofnað var vegna þeirra framkvæmda er hluti af persónulegum fjárfestingum mínum og ég vil ekki svara spurningum þar að lútandi“.

Fokheldur lúxus

Sigurður Einarsson keypti jörðina Veiðilæk vorið 2004, en hún stendur við Norðurá í Borgarfirði, eina frægustu laxveiðiá landsins. SPRON lánaði félagi í eigu Sigurðar á sama tíma 76 milljónir japanskra jena með veði í jörðinni. Framkvæmdir við byggingu setursins, sem er um 840 fermetrar, hófust árið 2007. Þar áttu meðal annars að vera fimm baðherbergi, stærðarinnar borðstofa, 50 fermetra vínkjallari, tvöfaldur bílskúr og tvö gufuböð sem áttu að vera byggð inn í bergið undir setrinu sjálfu. Setrið er í dag fokhelt og byggingu þess hefur verið hætt, að minnsta kosti tímabundið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert