FME telur umræðu ómálefnalega

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Eyþór

Fjármálaeftirlitið telur að sú gagnrýni sem aðgerðir eftirlitsins á hugsanlegum brotum tiltekinna fréttamanna á ákvæðum um þagnarskyldu í lögum um fjármálafyrirtæki, sé ómálaefnaleg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME. Þar kemur fram að miklu skipti við endurreisn íslenska fjármálakerfisins að endurheimta traust og trúverðugleika þess. Slíkt verði ekki gert ef grundvallarréttindi sem þessi verða höfð af vettugi.

Í tilkynningunni segir:

„Rannsóknir Fjármálaeftirlitsins á hugsanlegum brotum tiltekinna fréttamanna á ákvæðum um þagnarskyldu í lögum um fjármálafyrirtæki, hafa eðlilega vakið mikla athygli. Hér vegast á mikilsverð grundvallarréttindi þar sem annars vegar er réttur almennings á sem mestum upplýsingum um þau miklu áföll sem við höfum orðið fyrir undanfarna mánuði og hins vegar Stjórnarskrárvarinn réttur á friðhelgi einkalífs.

Umræddar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins hafa verið gagnrýndar harðlega og hefur sú gagnrýni að mati Fjármálaeftirlitsins á tímum verið ómálefnaleg. Vill Fjármálaeftirlitið því koma eftirfarandi á framfæri.


Þagnarskylda

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þá er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að standa vörð um traust og trúverðugleika íslenska fjármálamarkaðarins og stuðla að fjárfestavernd. Verði Fjármálaeftirlitið vart við hugsanleg brot á þeim lögum er falla undir eftirlit þess ber því skylda til þess að grípa til viðeigandi aðgerða, með réttlæti og jafnræði að leiðarljósi. Fjármálaeftirlitinu er ekki í sjálfsvald sett að ákveða hvaða lagaákvæðum skuli framfylgt og hverjum ekki.

Þagnarskylda eða bankaleynd er lögfest með 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ákvæðið á sér stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem staðfest eru mannréttindin um friðhelgi einkalífs, auk þess að vera staðfest í mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðasáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og í stjórnarskrám allra vestrænna ríkja. Þessi grundvallar mannréttindi gera ekki greinarmun á því hver á í hlut.

Í áðurnefndri lagagrein segir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fjármálafyrirtækis séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingarnar samkvæmt lögum. Þá segir að þagnarskyldan haldist eftir að viðkomandi starfsmaður lætur af störfum. Ennfremur segir að sá sem veitir viðtöku slíkum upplýsingum sé bundinn þagnarskyldu. Þarna kemur fram sú meginregla að „trúnaðarskylda fylgi upplýsingum“, eins og segir í greinargerð með lögunum. Af því leiðir að þeim sem fær slíkar upplýsingar í hendur er óheimilt að miðla þeim áfram, enda megi honum vera ljóst að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða. Brot á 58. gr. geta varðað viðurlögum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Þetta má öllum fréttamönnum vera ljóst, sem hafa nægilega þekkingu og kunnáttu til að fjalla um málefni fjármálamarkaða. Þeim aðilum sem umrædd rannsókn Fjármálaeftirlitsins beinist að hefur verið gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum, skýringum og sjónarmiðum.


Hvað felst í bankaleynd?

Mikið hefur verið rætt um „afnám bankaleyndar“ undanfarið. Virðist stundum sem misskilnings gæti um hvað í þessu felst. Rétt er að árétta að bankaleynd er ekki ætlað að koma í veg fyrir eftirlit eða rannsóknir á hugsanlegum lögbrotum. Íslensk lög gera beinlínis ráð fyrir því að til þess bærir aðilar hafi greiðan aðgang að öllum upplýsingum bankanna sem þeim er nauðsynleg til að sinna hlutverki sínu. Ljóst er að bankaleynd verður ekki, án breytingar á Stjórnarskránni, afnumin með þeim hætti að almenningur og fjölmiðlar fái að skoða þau trúnaðargögn sem fjármálafyrirtæki hafa að geyma. Með „afnámi bankaleyndar“ hefur einkum verið átt við að dregið verði úr hindrunum yfirvalda til þess að fá upplýsingar sem eru þeim nauðsynlegar vegna rannsóknar á málum þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi. Hefur þetta einkum valdið vandræðum vegna upplýsingaöflunar í ríkjum þar sem bankaleynd er sérstaklega rík.

Miklu skiptir, við endurreisn íslenska fjármálakerfisins, að endurheimta traust og trúverðugleika þess. Slíkt verður ekki gert ef grundvallarréttindi sem þessi verða höfð af vettugi, þ.e. ef viðskiptavinir geta ekki treyst því að trúnaðar sé gætt um þær viðkvæmu upplýsingar sem þeir treysta fjármálafyrirtækjum fyrir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert