Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta

Þing um loftslagsmál verður haldið í Kaupmannahöfn í desember.
Þing um loftslagsmál verður haldið í Kaupmannahöfn í desember. mbl.is/Brynjar Gauti

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduðu meirihluta í umhverfisnefnd Alþingis í gærkvöldi þegar þingsályktunartillaga um hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum var afgreidd.

Um er að ræða tillögu sem allir þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stóðu að um að Alþingi feli ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og tryggja sérstaklega að íslenska ákvæðið svokallaða haldi gildi sínu við samningsgerðina. Það fellur niður árið 2012 verði ekki samið um áframhald þess. Verði það raunin mun Ísland aðeins hafa útstreymisheimildir sem svara 3,7 milljónum tonna en líklegt er að útstreymi Íslands verði þó meira á þeim tíma.

Nefndarmeirihlutinn gengur lengra í áliti sínu og vill bæta við setningu um að svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ verði viðurkennt.

Í áliti nefndarmeirihlutans segir, að nauðsynlegt sé að leitað verði nýs samkomulags sem endurspegli áætlað útstreymi svo að þau fyrirtæki, sem hyggist nýta orku sem þegar verði hafin nýting á, þurfi ekki að afla útstreymisheimilda erlendis frá. Það geti jafnframt haft í för með sér að stoðum verði kippt undan rekstrargrundvelli íslenskra orkufyrirtækja gangi erfiðlega að afla slíkra heimilda eða reynist þær dýrar.

Nefndarmeirihlutinn telur óeðlilegt að atvinnulífi séu settar svo strangar skorður þegar hægt sé að beita vægari úrræðum og vinna að því að gildistími ákvæðisins verði framlengdur út næsta tímabil hið minnsta. Þá sé jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga vinnumarkaðssjónarmið enda mörg störf sem gætu tapast í kjölfar þess að fyrirtæki hér dragi eða hætti starfsemi. Þannig verði svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ viðurkennt.

Þá árétta þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að íslenska ákvæðið hafi notið stuðnings alþjóðasamfélagsins enda mikill skilningur á því að nýta beri endurnýjanlegar orkulindir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert