Var rekin vegna þjóðernis

Sigrún Björk Ólafsdóttir.
Sigrún Björk Ólafsdóttir.

 „Það þýðir ekkert að gefast upp. Maður verður bara að halda áfram að leita sér að vinnu,“ segir Sigrún Björk Ólafsdóttir sem fyrr á árinu var sagt upp starfi sínu sem verkefnisstjóri hjá öryggisfyrirtæki í Bretlandi fyrir það eitt að vera Íslendingur.

Sigrún hefur búið í Lundúnum sl. sjö ár og þar af unnið á sjötta ár sem skrifstofustjóri þegar henni bauðst vinna sem verkefnisstjóri hjá fyrrnefndu öryggisfyrirtæki. Segist hún ekki síst hafa slegið til þar sem nýi vinnustaðurinn var miklu nær heimili hennar en sá gamli.

Að sögn Sigrúnar lék allt í lyndi á nýja vinnustaðnum fyrsta hálfa árið eða þar til yfirmaður hennar, í upphafi þess árs, fékk þær upplýsingar frá stórum viðskiptavini fyrirtækisins að ekkert gæti orðið af fyrirhuguðum verkefnum á árinu þar sem viðskiptavinurinn hefði tapað miklum fjármunum vegna falls íslensku bankanna. „Að loknu þessu símtali sneri yfirmaður minn sér að mér og lét þau orð falla að við Íslendingar værum að gera þeim lífið leitt. Innan við viku síðar var búið að reka mig. Þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna var mér tjáð að ég hentaði ekki lengur vinnustaðnum,“ segir Sigrún og tekur fram að aðeins örfáum vikum áður hafi hún fundað með eiganda fyrirtækisins þar sem hann hafi tjáð sér að mikil ánægja væri með störf hennar.

Sigrún segist þegar í stað hafa leitað til lögfræðings til að kanna rétt sinn, enda verið afar ósátt við það að vera rekin fyrir það eitt að vera Íslendingur. „Lögfræðingurinn tjáði mér að ekkert væri hægt að gera þar sem ég hafði aðeins unnið hjá fyrirtækinu í hálft ár. Ég er þó ekki búin að gefa upp vonina um að ég geti leitað réttar míns,“ segir Sigrún. Í millitíðinni er Sigrún á atvinnuleysisbótum í Bretlandi, en hún hefur áunnið sér rétt til bóta þar í landi til ágúst nk. „Ég verð vonandi komin með vinnu fyrir þann tíma,“ segir Sigrún, en öll nánasta fjölskylda hennar býr í Bretlandi. Að sögn Sigrúnar auðveldar viðhorfsbreyting Breta til Íslendinga ekki vinnuleitina. „Því miður er það orðið þannig hér að það þykir ekki lengur fínt að vera Íslendingur. Það er eins og að margir haldi að allir Íslendingar séu þjófar,“ segir Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert