Svara ekki boði um makrílfund

Engin viðbrögð hafa borist frá Evrópubandalaginu, Norðmönnum og Færeyingum við boði íslenskra stjórnvalda um þátttöku í fundi hér á landi um miðjan mánuðinn til að ræða stjórnun makrílveiða.

Tilgangur fundarins með hinum strandríkjunum, sem koma að makrílveiðum í Norðaustur-Atlantshafi, var að reyna að finna farsæla lausn á framtíðarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi. Fyrirhugað var að embættismenn sæktu þennan fund og hugsanlega fiskifræðingar.

„Það verður að koma í ljós hvort af þessum fundi verður, en með þessu fundarboði vildum við sýna að okkur er full alvara,“ sagði Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, í gær. „Við höfum sótt það fast í allmörg ár að komast að þessu samningaborði um stjórnun makrílveiða og teljum í raun á okkur brotið að fá ekki að vera með.“

Á heimasíðu ráðuneytisins er fjallað um makrílveiðar og þar segir m.a. að Ísland sé í fullum rétti að nýta auðlind sem er innan efnahagslögsögu landsins og að halda öðru fram sé í þversögn við alþjóðalög. Síðar segir á heimasíðunni: „Það er ábyrgðarleysi annarra strandríkja að neita einu strandríki aðkomu að samningaviðræðum þegar þess hefur verið krafist í fjölda ára.“

Íslendingar fengu á síðasta ári í fyrsta sinn að sitja sem áheyrnarfulltrúar á fundi um stjórn makrílveiða. Íslensku fulltrúarnir fengu að vera við upphaf fundarins en fengu ekki að taka þátt í ákvörðunarferlinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert