Þúsundir nýta sér úrræði Íslandsbanka

Fjölmargir viðskiptavinir Íslandsbanka hafa nýtt sér þau úrræði sem bankinn býður upp á vegna greiðsluörðugleika og erfiðra aðstæðna í efnahagslífinu. Í frétt bankans segir að í lok mars hafi starfsmenn bankans framkvæmt um 5.500 skilmálabreytingar og frystingar. Á sama tíma höfðu um 2.400 viðskiptavinir Íslandsbanka fjármögnunar nýtt sér lækkun á leigugreiðslum bílasamninga. Um er að ræða lækkun á leigugreiðslu í 8 mánuði og lengingu á samningi um 4 mánuði. Lækkunin er u.þ.b. 50% af fullri leigugreiðslu í janúar 2009 og er föst krónutala þessa 8 mánuði.

Mikill áhugi á greiðslujöfnun erlendra lána
Í frétt bankans segir að Íslandsbanki hafi riðið á vaðið í byrjun mars síðastliðinn og boðið viðskiptavinum sínum, sem eru með húsnæðislán í erlendri mynt, svokallaða greiðslujöfnun erlendra lána – eða teygjulán eins og þau hafa verið kölluð. Greiðslujöfnunin felur í sér að viðskiptavinur greiðir sömu afborgun af erlendu láni og greitt var 2. maí 2008. Í stað þess að hafa sveiflur í greiðslubyrði um hver mánaðamót vegna þróunar á gengi krónunnar, þá færist sú sveifla yfir á lánstímann sem getur þá lengst eða styst eftir því hvernig gengi íslensku krónunnar þróast. Styrking krónunnar felur í sér styttingu lánstíma, veiking krónunnar felur í sér lengingu lánstíma.

Að sögn bankans er töluverður áhugi á þessari lausn meðal viðskiptavina og hafa á þriðja hundrað viðskiptavina sótt um greiðslujöfnun.

„Þó svo að margir okkar viðskiptavina nýti þessi úrræði er einnig mjög stór hópur sem greiðir af sínum lánum eftir sem og áður án þess að nýta sér skilmálabreytingar. Hinsvegar er ljóst að frystingu lána fer að ljúka hjá mörgum viðskiptavina og við munum að sjálfsögðu áfram bjóða þeim úrræði sem auðveldar þeim að komast í gegnum þetta tímabil. Við finnum fyrir miklum áhuga á greiðslujöfnun erlendra lána og gerum fastlega ráð fyrir að áhugi á þeirri lausn fari vaxandi  á næstunni nú þegar frystingu á erlendum lánum fer að ljúka,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert