Skulduðu hálfan milljarð í lok 2007

mbl.is

Skuldir stjórnmálaflokkanna fimm, sem nú eiga fulltrúa á þingi, námu um 475 milljónum króna í lok ársins 2007. Þar af skuldaði Framsóknarflokkurinn 154 milljónir og Samfylkingin 124 milljónir. Minnst skuldaði Frjálslyndi flokkurinn, eða tæpar 30 milljónir króna. Þetta kemur fram í reikningum flokkanna sem Ríkisendurskoðun birtir.

Sjálfstæðisflokkurinn þáði 57 milljónir króna í styrki frá lögaðilum, eða fyrirtækjum, árið 2007, mest allra flokka. Í reikningunum má sjá að 273 lögaðilar styrktu Sjálfstæðisflokkinn og meira en helmingur þeirra veitti flokknum leyfilega hámarksupphæð, 300.000 krónur. 180 lögaðilar styrktu Framsóknarflokkinn, 147 Vinstri græn og 111 styrktu Samfylkinguna.

Ætla má að lög um fjáröflun stjórnmálaflokka hafi breytt aðstæðum, frá gildistöku þeirra í ársbyrjun 2007. Þeir þrír flokkar sem hafa fengið mesta styrki, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, hafa birt upplýsingar um styrki frá fyrirtækjum sem námu meira en einni milljón króna.

Á vef Samfylkingarinnar kemur fram að heildarfjárhæð styrkja árið 2006 var 45 milljónir króna, þar af voru 36 milljónir vegna styrkja sem voru hærri en ein milljón. Sambærilegar upplýsingar er ekki að finna hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki.

Viðmælendur Morgunblaðsins innan flokkanna töldu flesta styrkjanna hafa borist á síðari hluta ársins 2006. Það mætti rekja til þess að sveitarstjórnarkosningar voru á fyrri hluta ársins en sumir töldu ljóst að lagasetningin hefði hvatt til þess að afla hærri styrkja, ekki síst með kosningaár framundan.

Landsbankinn veitti flokkunum þremur alls 36 milljónir í styrki árið 2006. Mestur hluti upphæðarinnar er 25 milljóna viðbótarstyrkur til Sjálfstæðisflokksins. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Haukur Leósson, endurskoðandi flokksins, hafi gert athugasemdir við styrki Landsbankans og FL Group við endurskoðun ársreikningsins 2006. Haukur hefur þó ekki viljað tjá sig um málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert