Flestir treysta núverandi stjórnarflokkum

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Golli

Meirihluti telur annan hvorn núverandi stjórnarflokka, þ.e. Samfylkinguna eða Vinstri græna, best til þess fallinn að leiða helstu málaflokka á næstu mánuðum, að því er fram kemur í nýrri skoðanakönnun MMR. Þá vilja flestir að VG leiði rannsókn á tildrögum bankahrunsins og að Sjálfstæðisflokkurinn leiði efnahags- og skattamál.

Í könnuninni kom í ljós að áberandi margir, eða 45,5%, töldu Vinstri græna best til þess fallna að leiða rannsókn á tildrögum bankahrunsins. VG voru jafnframt taldir best fallnir, af flestum, að fara með umhverfismál (44,3%), nýtingu náttúruauðlinda (35,9%), mennta-og skólamál (34,8%), heilbrigðismál (32,4%) og samninga við Breta um Icesave skuldbindingar 31,9%).

Flestir töldu Samfylkinguna best til þess fallna að leiða samninga um aðild að Evrópusambandinu (41%), atvinnuleysi (35,3%) og innflytjendamál (28,4%).

Aftur móti er Sjálfstæðisflokkurinn flestum talinn best til þess fallinn fara með lög og reglu almennt (34,5%), efnahagsmál almennt (34,3%), skattamál (34,2%) og endurreisn atvinnulífsins (34,0%).

Könnunin var framkvæmd dagana 6.-14 apríl og var heildarfjöldi svarenda 876 einstaklingar (85% gagnaöflunar átti sér stað dagana 6-7. apríl).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert