Mun tryggja að Líf fái líf

„Ég legg það á mig sem þarf til þess að tryggja að það finnist sú lausn í málinu að Líf fái líf,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra.

Hún var á ferð á Austurlandi í dag og heimsótti hreindýrskálfinn Líf sem ábúendur að Sléttu utan við Reyðarfjörð hafa haldið frá því í fyrravor.

„Hún er mjög mannelsk, rétt eins og gæludýr. Fjárhundurinn var þarna við hlið hennar og ég mátt klappa þeim báðum,“ segir Kolbrún.

Umhverfisstofnun hafði bent ábúendum á ákvæði laga um villt dýr og hvatt þá til að sækja um leyfi til að halda hreindýrskálfinn. Að öðrum kosti gæti þurft að aflífa dýrið.

Kolbrún Halldórsdóttir segir að ekki muni koma til þess.

„Ég er sannfærð um að Líf mun eiga langt og farsælt líf fyrir höndum. Það er verið að skoða þetta í ráðuneytinu og það verður auðvitað fundin lausn á þessu máli. Það á ekki að fara að slátra henni Líf, svo mikið er víst.“

Samkvæmt lögum má ekki hafa villt dýr í haldi en Líf er ekki í haldi. Hún er á bænum Sléttu þar sem hún er alin upp.

„Þetta er fólk sem bjargaði lífi hennar og hún fer ekki lengra en svo að hún sjái til bæjarins. Ef að Líf velur að vera þarna þá er ekkert í lögum sem skilgreinir hvar villt dýr skuli halda sig. Þetta mál horfir þannig við að það þarf bara að ákveða hvernig þessu verður fyrirkomið. Nú verður þetta mál bara lagað og leiðrétt,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert