Fyrir rannsóknir í orkuvísindum

Samningurinn um rannsóknasetrið var undirritaður í dag.
Samningurinn um rannsóknasetrið var undirritaður í dag. Kristinn Ingvarsson

Rannsóknarsetri í orkuvísindum verður komið á fót samkvæmt samningi sem undirritaður var í dag. Háskóli Íslands, Keilir, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, HS Veitur og HS Orka hf. undirrituðu samstarfssamninginn.

Samstarfið felur í sér að byggja upp á Ásbrú aðstöðu til þess að stunda rannsóknir á sviði orkuvísinda, sérstaklega á sviði jarðvarma og annarrar endurnýjanlegrar orku og innlendrar orkuframleiðslu, samkvæmt frétt frá Háskóla Íslands. Rannsóknarsetrið verður nýtt sem kennsluaðstaða í orkuvísindum við Keili, Háskóla Íslands og aðra innlenda skóla og kennslustofnanir. Jafnframt við rannsóknir á vegum stofnaðila sem og annarra aðila.

Talið er að rannsóknarsetrið muni stórbæta alla aðstöðu til verklegrar kennslu og rannsókna í orkuvísindum á Íslandi. 

„Markmið samningsins er fjórþætt. Í fyrsta lagi að stórefla aðstöðu á Íslandi til verklegrar kennslu og þjálfunar í verk– og tæknigreinum.  Í öðru lagi að koma upp öflugri aðstöðu fyrir verklegar rannsóknir í orkuvísindum.  Í þriðja lagi að efla samstarf akademíunnar og atvinnulífsins.  Í fjórða lagi að ná fram sparnaði vegna samlegðar sem fæst með því að færa ákveðnar rannsóknir samningsaðila undir eitt þak.

Starfssvið rannsóknarsetursins verða rannsóknir á beislun og nýtingu orku sem hægt er að virkja á Íslandi.  Megináhersla verður lögð á þróun á búnaði og aðferðum til nýtingar jarðvarma (háhita- og lághitavarma).  Rannsóknasetrinu verður skipt upp í fjórar sérhæfðar rannsóknarstofur sem munu vinna náið saman.  Starfssvið stofanna er: varma- og straumfræði, efnisfræði, mekatróník og efnafræði. Rannsóknasetrið verður staðsett í húsnæði Keilis, Grænásbraut 910.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert