Strandveiðar í stað byggðakvóta

Sjávarútvegsráðherra áformar að koma á nýjum flokki veiða, strandveiðum, þar sem heimilaðar verða frjálsar handfæraveiðar við ströndina. Gert er ráð fyrir að nýja kerfið komi í stað svonefnds byggðakvóta.

Fram kom á blaðamannafundi, sem Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra hélt í dag, að hann hefði kynnt ríkisstjórninni á þriðjudag þau áform sín að fresta úthlutun byggðakvóta nú á þessu fiskveiðiári til að skapa svigrúm fyrir breytta stefnu til styrkingar og örvunar atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Hafi ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þessi meginsjónarmið.

Steingrímur gerir ráð fyrir, að fram komi frumvarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þegar að afloknum kosningum til að koma á strandveiðum til reynslu, strax í sumar, að því gefnu að  frumvarpið verði að lögum. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir að byggðakvóta verði ekki úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samkvæmt hugmyndum Steingríms verða heimilaðar frjálsar handfæraveiðar við ströndina.  Strandveiðarnar munu þó í meginatriðum takmarkast annars vegar af þeim heildarafla  sem ráðstafað er sérstaklega í þessu skyni og hins vegar af stærð báta. Gert er ráð fyrir að strandveiðum verði í fyrstu komið á til reynslu. Síðan verður metið hvernig til hafi tekist og framhald ákveðið.

Markmiðið er nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum verði gert mögulegt að stunda frjálsar veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Steingrímur sagði, að núverandi stjórn fiskveiða sé gagnrýnd fyrir að erfitt sé fyrir nýja aðila að hefja veiðar í atvinnuskyni. Með strandveiðunum sé opnað á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki þurfa að vera handhafar veiðiheimilda. Þannig sé til að mynda ungu og áhugasömu fólki auðveldað að afla sér reynslu og þekkingar um leið og sveigjaleiki er aukinn.

Gert er ráð fyrir, að til strandveiðanna verði ráðstafað þeim heimildum, sem nú mynda byggðakvóta, þ.e.a.s. 6127 tonnum af óslægðum botnfiski auk 2000 tonna viðbótar sem ráðherra ákveður. Þetta magn myndi stofn strandveiðanna, en fyrirmyndin er sótt í verklag við svonefnda línuívilnun. Öllum verður frjálst að stunda þessar veiðar sem uppfylla þau almennu skilyrði sem sett verða.

Alls eru skráðir um 720 haffærir bátar undir 15 brúttótonnum. Um 650 þessara báta hafa stundað fiskveiðar í atvinnuskyni á síðastliðnum árum. Varanlegar aflaheimildir eru bundnar við 350 þeirra en til viðbótar eru um 140 bátar með varanlegar aflaheimildir en eru ekki með gilt haffæri sem oftast er þá innlagt. Til viðbótar er einhver fjöldi báta sem varanlegar aflaheimildir eru ekki bundnar við og ekki hafa gilt haffæri.

Tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert