Hörð gagnrýni á heilbrigðisráðherra

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn

Framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, Gunnar Ármannsson, gagnrýnir heilbrigðisráðherra, Ögmund Jónasson, í pistli á vef félagsins í dag. Vísar Gunnar til fréttar sem birtist í Morgunblaðinu þar sem heilbrigðisráðherra segir að verið gæti að fjárvana stofnanir gætu freistast til þess að reyna að finna eitthvað að heilbrigðu fólki ef peningar eiga að fylgja sjúklingum.

„Þessi fullyrðing ein og sér er svo sannarlega gagnrýni verð og vekur furðu að ráðherrann skuli sleppa við að þurfa að rökstyðja þessa fullyrðingu sérstaklega. Ráðherrann sagði hins vegar meira – samkvæmt upplýsingum molahöfundar. Samkvæmt þremur heimildarmönnum, þar af einum lækni, fullyrti ráðherrann að læknar myndu finna eitthvað að sjúklingi til að hirða af honum, og þar með ríkinu, aurana sem hann hefði til ráðstöfunar til að kaupa sér læknisþjónustu ef upp væri tekið kerfi ávísana. Þessi framsetning og þessi fullyrðing æðsta ráðamanns íslenska heilbrigðiskerfisins er með þvílíkum ólíkindum að furðu vekur að enginn fjölmiðill skuli bregðast við með gagnrýnum hætti. Á mannamáli þýðir framsetning á þessum nótum aðeins eitt: rógburður.

Þetta er hins vegar ekki eina dæmið um málflutning ráðherrans. Hann hefur nefnt fleiri dæmi til sögunnar, t.d. fyrirkomulagið á St. Jósepsspítala, há laun margra lækna á landsbyggðinni, að eðlilegt sé að færa lækna á berstrípaða launataxta án nokkurs tillits til þess hvernig á því stendur að íslenskir launataxtar fyrir læknisþjónustu eru allt aðrir og lægri en í samkeppnislöndum okkar," skrifar Gunnar í mola dagsins á vef Læknafélags Íslands.

Gunnar segir sitjandi ráðherra vera sér nokkur ráðgáta – en þó ekki. „Sitjandi ráðherra er sennilega, að mati molahöfundar, slyngasti pólitíkusinn sem gegnt hefur embættinu í tíð molahöfundar.

Ástæða þessa mats molahöfundar er sú að molahöfundur hefur hitt ráðherrann á fundum með læknum og hefur einnig fengið fréttir af fundum ráðherra með læknum. Það sem molahöfundur hefur sjálfur heyrt frá ráðherra og heyrt frá læknum sem hitt hafa ráðherra, vegna hagsmuna lækna, er að ráðherra virðist hafa góðan skilning á hagsmunum lækna – og sjúklinga. Amk lítur það þannig út að hann leggi sig fram við að öðlast skilning á veruleika lækna. Meðal lækna talar ráðherra á þá leið að hann viti dæmi þess að í kerfinu séu súr ber sem þurfi að fjarlægja – en að almennt séu berin góð og að þeim þurfi að hlúa – að sjálfsögðu með hagsmuni sjúklinga í huga.

Þegar hann hins vegar talar um þessi súru ber á opinberum vettvangi þá virðist honum alltaf takast að setja ummæli sín í búning alhæfingar um störf og kjör lækna. Á þann hátt að læknar séu ofhaldnir í launum og muni gera það sem mögulegt er til að hafa fé af sjúklingum og ríkinu. Ef gengið er á hann og óskað skýringa er svarið oftast á þá leið að hann vilji samstarf og samvinnu við heilbrigðisstéttirnar. Skyldi það vera tilviljun  að honum takist trekk í trekk að láta læknastéttina líta illa út þegar hann talar um hana opinberlega eða telur ráðherrann það gagnast hagsmunum sínum?

Af þeim stuttu kynnum sem molahöfundur hefur haft að ráðherranum dettur honum ekki til hugar að um tilviljun sé að ræða."

Pistillinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert