Kvótakerfi ekki breytt

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra segist ekki sjá fram á að gerðar verði breytingar á úthlutun aflaheimilda á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Lengri tíma þurfi að gefa sér í að undirbúa breytingar á kerfinu, en bæði VG og Samfylking hafa á stefnuskrá sinni að innkalla veiðiheimildir og endurúthluta þeim. Í stefnuskrá VG er gert ráð fyrir að 5% heimilda verið innkallaðar árlega.

Steingrímur J. leggur áherslu á að verkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að móta nýja sjávarútvegsstefnu og að því borði þurfi að koma m.a. útgerðarmenn, sjómenn og fulltrúar sjávarbyggðanna. „Það er augljóst mál að við þurfum að fara varlega af stað með breytingar á kerfinu, ekki síst með hliðsjón af ástandinu núna. Sjávarútvegurinn er skuldsettur og hann er okkur mikilvægari en um langt árabil.“

Steingrímur segist ekki hafa verið í hópi þeirra stjórnmálamanna sem hafi lagt áherslu á að breytingar á kvótakerfinu leiði til þess að úthlutun kvótans verði tekjustofn fyrir ríkissjóð. „Ég legg meiri áherslu á að grundvallarfyrirkomulagið sé gott, gagnist okkur, búi útgerðinni lífvænleg skilyrði en um leið stuðli að meiri sátt í sjávarútvegi. Afrakstur af góðum og vel reknum sjávarútvegi skilar sér alltaf á endanum til þjóðarinnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert