Með vélbyssur og flugskeyti yfir Akureyri

Ein af F-16 vélum danska flughersins.
Ein af F-16 vélum danska flughersins.

F-16 þotur danska hersins, með vélbyssur og létt flugskeyti, æfðu aðflug að Akureyrarflugvelli dagana 21. og 22. mars síðastliðinn. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns VG, segir að gera megi ráð fyrir frekara flugi herflugvéla yfir Akureyri, þar sem það sé hluti af öryggisviðbúnaði.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs spurði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra hver tilgangurinn með flugi herflugvéla yfir Akureyri hafi verið helgina 21. og 22. mars sl.

Í svari ráðherra segir að flugvélarnar hafi tilheyrt danska flughernum og verið hér að sinna loftrýmisgæslu. Tilgangurinn hafi verið að æfa aðflug að Akureyrarflugvelli sem sé nauðsynlegt af öryggisástæðum lokist Keflavíkurflugvöllur eða ef upp koma önnur ófyrirséð atvik. Þá segir að flugvélarnar hafi ekki flogið yfir bæinn heldur hefðbundna aðflugsleið og hafi aðflugsæfingin verið samhæfð við flugturn Akureyrarflugvallar og Flugstoðir. 

Vélarnar hafi flogið eftir skilgreindum aðflugsferlum og í samræmi við allar öryggisreglur sem gerðar eru til flugvéla sem eru í aðflugi að Akureyrarflugvelli. Lægst hafi vélarnar farið í 300 fet yfir flugbraut Akureyrarvallar.

Utanríkisráðherra segir að þessi flug hafi verið með sama fyrirkomulagi sl. ár og gera megi ráð fyrir sambærilegu flugi í hvert sinn sem fram fer loftrýmisgæsla við Ísland með þátttöku flugsveita frá bandalagsríkjum Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu. Æfing aðflugs að Akureyrarflugvelli sé hluti af öryggisviðbúnaði vegna þessa flugs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert