Fíkniefni af ýmsu tagi

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í dag
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í dag mbl.is/Júlíus

Fíkniefnin, sem tekin voru í fyrrinótt á Austurlandi, eru af ýmsu tagi en hluta þeirra var í dag stillt upp í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Alls er um að ræða yfir 109 kíló af fíkniefnum: hass, maríjúana, amfetamín og nokkur þúsund e-töflur.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregla og tollgæslan hafi unnið lengi að rannsókn málsins en aðgerðirnar um helgina bar nokkuð brátt að.

Tveir mannanna, sem handteknir voru um borð í belgískri skútu seint í gærkvöldi, eru íslenskir ríkisborgarar, annar þrítugur og hinn á fimmtugsaldri. Báðir hafa komið við sögu lögreglunnar áður vegna fíkniefnamála. Sá þriðji er hollenskur ríkisborgari á fimmtugsaldri. Hann hefur áður komið til Íslands og er verið að afla upplýsinga um feril hans.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar, að rannsóknin hafi verið unnin í samvinnu við lögregluna í Færeyjum og Evrópulögregluna Europol en ekki var upplýst hvort skútan hefði komið þar við á leiðinni til Íslands. Um 70 manns frá Landhelgisgæslunni tóku þátt í aðgerðunum auk tuga manna frá lögreglu og tollgæslu.

Stefán Eiríksson sagði, að þetta væri í fyrsta skipti í langan tíma, sem reynt hefði verið að smygla maríjúana til landsins og það benti til þess, að aðgerðir lögreglu gegn kannabisræktun væru farnar að skila árangri. 

Sinntu ekki fyrirmælum um að stöðva skútuna

Fram kom á fundinum, að eftir að þrír karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir á Austurlandi aðfaranótt sunnudags en fíkniefnin fundust í töskum í farangursrými bíls, sem einn þeirra ók á hringveginum nálægt Höfn. Í kjölfarið hófst leit að skútu, sem talið er að hafi flutt fíkniefnin til landsins. Landhelgisgæslan lagði til þyrlu, flugvél og varðskip og fannst skútan á laugardagsmorgun við miðlínuna milli Íslands og Færeyja á leið norður fyrir Færeyjar. Var það áhöfnin á TF-Sýn sem fann skútuna.

Fylgst var með skútunni, m.a. með aðstoð eftirlitsflugvélar frá danska flughernum, þar til varðskip sigldi hana uppi á ellefta tímanum í gærkvöldi og var hún þá 65 sjómílur frá Færeyjum. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði að þegar það gerðist hefði eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar verið á síðustu bensíndropunum og þurfti því að snúa við til lands.

Fjórir sérsveitarmenn fóru í gúmbáti að skútunni og handtóku áhöfn hennar. Áður hafði lögregla og Landhelgisgæslan verið í talstöðvarsambandi við skútuna, sem hunsaði fyrirmæli um að stöðva og gefast upp. Mennirnir sýndu ekki mótspyrnu. Stefán Eiríksson vildi ekki tjá sig um hvort mennirnir í skútunni hefðu verið vopnaðir.

Skútan siglir nú í átt til Íslands fyrir eigin vélarafli í fylgd varðskipsins Týs og sagði Stefán Eiríksson, að talið væri að hún komi til hafnar á morgun.

Stefán  sagði, að aðkoma Landhelgisgæslunnar hefði skipt sköpum í að skútan fannst og hægt var að handtaka mennina sem þar voru um borð. Þá báru fulltrúar lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar lof á samvinnu lögregluembættanna sem komu að málinu.

Fíkniefnin sem fundust um helgina í einu stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar
Fíkniefnin sem fundust um helgina í einu stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar mbl.is/Július
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert