Segja sameiningu spara 19 milljarða

Líkan af nýja sjúkrahúsinu
Líkan af nýja sjúkrahúsinu

Sérfræðingar norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitekter AS og Hospitalitet AS telja ávinninginn af því að sameina rekstur Landspítala vera um 19 milljarða króna á núvirði til næstu 40 ára. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nú stendur yfir.

Þeir telja mun dýrara fyrir íslenskt samfélag að reka Landspítalann áfram við núverandi aðstæður í Fossvogi og við Hringbraut en að sameina reksturinn og hagkvæmast sé að byggja við núverandi Landspítala við Hringbraut í fyrsta áfanga og nýta áfram flest hús sem fyrir eru á lóðinni.

Sérfræðingarnir telja unnt að áfangaskipta verkefninu í heild þannig að viðráðanlegra verði að hrinda því í framkvæmd og spara 6% í rekstri spítalans strax að loknum fyrsta áfanga, sem svarar til ríflega tveggja milljarða króna á ári.

Til viðbótar þessum efnahagslegu rökum sérfræðinganna ber að nefna að Landspítali býr við úr sér genginn húsakost með tilheyrandi erfiðleikum og óhagræði í daglegri starfsemi og minna öryggi fyrir sjúklinga en unnt er að una við, aðstæður fyrir sjúklinga og starfsfólk sem standast ekki nútímakröfur og vaxandi vandamál við að fá menntað íslenskt fagfólk heim úr námi eða starfi erlendis til vinna á Landspítalanum, að því er segir á vef sjúkrahússins.

Framkvæmdakostnaður áætlaður 51 milljarður króna

Áætlað er að við Hringbraut rísi ný hús, alls um 66.000 fermetrar, þar sem verði slysa- og bráðamóttaka, skurðstofur og gjörgæsla, legudeildir með 180 rúmum í einbýli og 80 herbergja sjúkrahótel. Gert er ráð fyrir að stór hluti núverandi húsnæðis við Hringbraut (53.000 fermetrar) verði gerður upp og nýttur áfram.

Framkvæmdakostnaður er áætlaður 51 milljarður króna eða ríflega 600.000 krónur á fermetra. Þar af kosta nýbyggingar alls 33 milljarða króna, húsgögn og tæki 7 milljarða króna og endurbygging eldra húsnæðis 11 milljarða króna.

Í nýrri tímaáætlun er gert ráð fyrir hönnunarsamkeppni vegna nýs spítala á síðari hluta árs 2009 og að úrslit hennar verði kynnt á fyrsta ársfjórðungi 2010. Jarðvinna geti hafist snemmsumars 2011 og framkvæmdir snemma árs 2012.

Sjá nánar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert