Utanríkismálanefnd ræðir Icesave

Retuers

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur, að beiðni Sivjar Friðleifsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, verið boðuð til fundar í fyrramálið. Ræða á trúnaðargögn sem varða samskipti íslenskra og breskra stjórnvalda í svokölluðu Icesave-máli dagana 3.-6. október 2008. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur heimilað aðgang utanríkismálanefndar að gögnunum.

„Ég vil bara að fáum þessar upplýsingar inn í utanríkismálanefnd. Það er eðlilegt að þingmenn fái að vita hvort þarna séu gögn sem geta skýrt atburðarrásina í kringum það að Icesave-ábyrgðirnar féllu á Íslendinga. Það hafa auðvitað komið fram alls kyns skýringar í umræðunni en ég vil ekki hlaupa eftir neinu slíku. Ég vil fá staðfestingar með gögnum og á þeim grunni hef ég spurt um fjölmörg atriði sem snúa að Icesave-ábyrgðunum,“ segir Siv Friðleifsdóttir.

Svörin hafa verið rýr en ýmislegt hefur þó skýrst að sögn Sivjar.

„Ég sá ástæðu til að spyrja nokkur ráðuneyti út í þessi mál. Björgólfur Thor Björgólfsson fullyrðir t.d. að það hafi verið unnt að koma Icesave-ábyrgðunum, með flýtimeðferð, undir breska lögsögu. Tryggvi Þór Herbertsson, staðfestir það svo í viðtali í fjölmiðlum að hann hafi upplýst þáverandi forsætisráðherra um að þetta væri mögulegt,“ segir Siv.

Þarna er vísað til fullyrðinga Björgólfs Thors þess efnis að færa mætti Icesave-reikninga Landsbankans í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra sagði í svari við fyrirspurn Sivjar á Alþingi að því væri enn ósvarað hvort um nokkurt slíkt tilboð hafi verið að ræða. Sér hafi að minnsta kosti ekki verið kunnugt um slíkt.

Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi efnahagsráðgjafi Geirs, hefur hins vegar upplýst að hann hafi sagt Geir frá samskiptum Landsbankamanna og breska fjármálaeftirlitsins.

Um miðjan mars spurði Siv, Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um minnisblöð, hljóðritanir o.fl. varðandi Icesave-ábyrgðir. Svar Jóhönnu barst 17. apríl, á lokadegi Alþingis. Þar segir m.a. að öll tiltæk gögn í ráðuneytinu sem varða aðdraganda bankahrunsins, þ.m.t. minnisblöð um samtöl þáverandi forsætisráðherra við breska ráðamenn í byrjun október sl., hafi verið afhent rannsóknarnefnd Alþingis. Í svarinu segir að það sé verkefni rannsóknarnefndarinnar að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

„Forsætisráðuneytið telur því ekki rétt að það leggi mat á þýðingu fyrirliggjandi gagna. Ráðuneytið telur heldur ekki rétt að það endursegi efni gagnanna,“ segir í svari Jóhönnu Sigurðardóttur.

Jóhanna bendir í svari sínu á að opinberum aðilum sé óheimilt að veita aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur fengið afhent, nema með samþykki nefndarinnar. Þá segir að ráðuneytið sé reiðubúið að kynna utanríkismálanefnd gögnin í trúnaði, enda geri rannsóknarnefndin ekki athugasemdir við það.

Siv Friðleifsdóttir óskaði þegar að fengnu svari forsætisráðherra, eftir fundi í utanríkismálanefnd til að ræða þessi trúnaðargögn. Leyfi hefur nú fengist frá rannsóknarnefndinni og hefur utanríkismálanefnd verið boðuð til fundar í fyrramálið, sólarhring fyrir kjördag.

„Ég auðvitað veit ekki hvað er í þessum gögnum en ég tel eðlilegt að þingið fái uplýsingar eftir þeim leiðum sem forsætisráðherra bendir á enda á þingið að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Þetta er ekkert smámál. Þarna gæti verið um hundruð milljarða króna að ræða,“ segir Siv.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert