Ekki refsað fyrir að geyma fíkniefni í fangaklefa

Frá Litla Hrauni.
Frá Litla Hrauni. mbl.is/Ómar

Fanga á Litla Hrauni, sem afplánar nú 18 mánaða fangelsisdóm, verður ekki gerð sérstök refsing vegna brota á fíkniefnalöggjöf samkvæmt dómi héraðsdóms Suðurlands. Fangaverðir fundu 4,46 grömm af hassi við leit í klefa fangans.

Lögreglustjórinn á Selfossi ákærði fangann vegna brotsins og krafðist þess að hann yrði dæmdur til refsingar. Fanginn játaði brot sitt fyrir dómi og óskaði ekki eftir verjanda.

Samkvæmt sakarvottorði hefur fanganum margsinnis verið gerð refsing vegna ýmissa brota. Síðast var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 2. febrúar sl. dæmdur í fangelsi í 18 mánuði og sviptur ökurétti í þrjú ár. Refsing hans var ákvörðuð sem hegningarauki. Brot það sem maðurinn er nú dæmdur fyrir var framið áður en framangreindur dómur var kveðinn upp og ber því, samkvæmt ákvæðum hegningarlaga að ákvarða refsingu hans sem hegningarauka við dóminn frá 2. febrúar sl.

Að mati dómar við héraðsdóm Suðurlands hefði maðurinn ekki verið dæmdur til þyngri refsingar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar, þó hann hefði einnig við það tækifæri verið dæmdur fyrir fíkniefnabrotið sem nú er  dæmt fyrir. Fanganum verður því ekki gerð sérstök refsing fyrir fíkniefnabrotið.

Dómur héraðsdóms Suðurlands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert